136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:57]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað með athygli á þær ræður sem hafa verið haldnar og á laugardaginn flutti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson mjög athyglisverða ræðu. Hann hefur hvað lengsta þingreynslu á Alþingi og það var athyglisvert að hlusta á þau sjónarmið og skoðanir sem hann vakti athygli á. Í fyrsta lagi gerði hann að umtalsefni að aðdragandi málsins væri með mjög óvenjulegum hætti. Aðdragandi málsins væri sá að ríkisstjórnin, forsætisráðherra hefði skipað starfshóp og síðan hefði sá starfshópur unnið ákveðnar tillögur sem hefðu verið lagðar fram og sett á laggirnar sérnefnd um stjórnarskrármál.

Þingmaðurinn sagði af því tilefni að þar með hefði verið rofinn sá grundvallarþráður um samstarf og samráð og lengra gengið en áður hefði verið. Þannig að upphaf þess máls sem við ræðum hér og með hvaða hætti það var sett fram, undirbúið og afgreitt, var með allt öðrum hætti en um hefði verið að ræða fyrr varðandi breytingar á stjórnskipunarlögum, þ.e. það sem menn hafa viljað fá afgreitt hverju sinni.

Það er þetta sem skiptir svo miklu máli og er svo alvarlegt sem við erum hér að fjalla um að hér er verið að gera hluti með allt, allt öðrum hætti en hefur verið gert og þess ekki freistað að ná víðtæku samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að afgreiða það sem hægt er að vera sammála um að afgreiða.

Og af hverju var það ekki gert? Það var vegna þess að það var enginn vilji til þess. Það átti einfaldlega að ganga og troða þessum tillögum ofan í kok á stjórnarandstöðunni hvort sem henni líkaði betur eða ver. Þetta er því alveg hárrétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á í sinni góðu ræðu á laugardaginn að hér var farið inn á nýjar slóðir, fetað inn á nýjar brautir sem eru að mínu viti ekki sæmilegar og þeim mun meira andstætt eðlilegum leikreglum þegar það liggur fyrir að búið er að boða til kosninga og nýtt þing kemur saman innan þriggja vikna. Eða nýtt þing verður kosið innan þriggja vikna.

Því hefur margoft verið lýst yfir í umræðum af hálfu okkar sjálfstæðismanna að það er fullur vilji til að reyna að ná samkomulagi um það sem máli skiptir. Þá á ég við að auðvelda möguleika til þess að ná fram breytingum á stjórnarskrá þannig að hægt sé að samþykkja breytingar á stjórnarskrá og síðan að leggja það mál undir dóm þjóðarinnar. Það er það sem skiptir máli fyrir okkur nú að ná fram, að auðvelda stjórnarskrárbreytingar að því leyti að hægt sé að ná fram breytingum þannig að ekki þurfi að boða til nýrra kosninga og nýtt Alþingi þurfi að koma til hvað það varðar.

Í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á laugardaginn kom líka fram sjónarmið þar sem hann benti á auðlindaákvæði sem Ragnar Arnalds og fleiri höfðu flutt og síðan ákvæði sem væri í sjálfu sér allra góðra gjalda vert, þ.e. spurningin um að menn skilgreindu auðlindir með víðtækari hætti en nú er gert. Hvað þessi mál varðar erum við að fjalla um hugtök og hluti þar sem vantar kannski að fá fyllri skilgreiningar á.

Það var bent á að talað hefði verið um að auðlindir sem væru í eign þjóðarinnar væru þær sem væru undir hundrað metrum, undir yfirborði jarðar. Það er í sjálfu sér ekkert ólíkt því sem gerist í Alaska þar sem miðað er við að yfirborðið sé eign þess sem á landið en auðlindir eða nýtanleg réttindi sem geta skapað verðmæti sem eru undir því yfirborði, miðað við ákveðna fjarlægð sem ég kann nú ekki alveg nákvæmlega að greina, það er hlutur sem er undir ráðstöfunarrétti ríkisvaldsins sem getur framselt þau réttindi til ákveðinna rétthafa. Það er gert þannig að t.d. í Alaska hafa menn sérstakan sjóð sem mig minnir að sé kallaður „permanent fund“ sem hefur með að gera stjórn og stýringu á þeim auðlindum sem ríkið hefur undir sinni stjórn.

Það sem síðan gerist og það sem mér finnst virðingarvert og hefði viljað sjá gerast hjá okkur, er að við tækjum upp svipaða hluti hvað þetta varðar eins og Alaskabúar, bæði hvað varðar skilgreiningu á auðlindum sem lúta umsjá ríkisins og þess vegna útleigu. Þar er það þannig að miðað er við það, eftir því sem hægt er, að auðlindirnar séu nýttar með sjálfbærum hætti, miðað við svona hefðbundna skilgreiningu þess hugtaks. Það liggur samt alveg fyrir að ákveðnar auðlindir verða ekkert notaðar með sjálfbærum hætti. Þannig gengur á námaréttindi sem tekið er af þar er ekki um endurnýjun að ræða, t.d. eðalmálmar, olía og margt fleira. Malarnám er þannig að það verður ekki um að ræða sjálfbæra notkun á malarnámum svo dæmi sé tekið hér.

En fyrirkomulagið hjá Alaskabúum er þannig að stjórn þessa sjóðs hefur með að gera útleigu og hámarksarðsemi af þeim auðlindum sem ríkisvaldið hefur með að gera. Það sem síðar gerist er að fjármunir eru teknir af því sem þannig fæst inn fyrir útleigu eða nýtingarrétt til þess að styðja við og stuðla að uppbyggingu þeirra auðlinda sem þar er um að ræða eftir því sem við á. En það sem eftir stendur rennur til íbúa Alaska jafnt. Íbúar í Alaska fá senda ávísun einu sinni á ári. Það er þeirra arður af þjóðarauðlindinni, eða ef menn vilja nota eitthvað annað hugtak eða aðra skýringu, en þetta er arður þeirra af þeim eignum, af þeim auðlindum sem eru í stjórn eða stýringu ríkisins sem er með þeim hætti að þessi sjóður hefur með það að gera. Þannig fyrirkomulag og þannig stýringu hefði ég viljað sjá hér á landi að við hefðum hvað auðlindir okkar varðar.

Það hefði mér fundist ástæða til að fjalla um. En það hefði þá þurft að gera í upphafi þessa kjörtímabils. En það er í sjálfu sér ágætt að velta upp þessu sjónarmiði þar sem komið er að lokum kjörtímabilsins og nýtt þing kemur saman innan skamms. Að þessi hugsun geti þá orðið og náð fram að ganga þar, þ.e. að þjóðin sjálf, fólkið í landinu njóti þá afraksturs auðlindanna jafnt.

Það ætti að vera gleðiefni og hjörtun ættu að slá hraðar í brjóstum þeirra jafnaðarmanna sem eru í salnum eða sitja rétt fyrir utan og hlusta á tillögur sem þessa. Það er þó ekki endilega spurningin um að það fylgi þeirri hugmyndafræði sem þar er um að ræða heldur fyrst og fremst að þegar búið er að skilgreina ákveðinn hlut þannig að hann sé í sameign ákveðinna aðila og í Alaska er það skilgreint þannig að þessar auðlindir séu sameign íbúa Alaskaríkis, þá þýðir það það að þeir sem hafa búið í Alaska í tvö ár eða lengur njóta arðsins. Þeir fá hver og einn senda heim til sín ávísun, arðinn eða sem sagt auðlindarentuna.

Það var líka annað atriði sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og kom reyndar fram líka í máli hans í dag þegar fjallað var um stjórn forseta en þá var vakin athygli á því að menn ættu að einhenda sér í það hvað þetta mál varðar, í þau atriði sem samkomulag gæti náðst um. Við sjálfstæðismenn höfum talað um þau atriði sem samkomulag ætti að geta náðst um og það kom mun skýrar fram í nefndinni en það kannski hefur komið fram í umræðum. Það er ljóst að það er verulegur ágreiningur um ákveðna þætti meðan samkomulag ætti að geta náðst um annað.

Þannig liggur fyrir eins og ég gat um að samkomulag á að geta náðst um að standa að breytingu á 2. gr. þannig að þjóðin hefði með það að gera. Ég tel þó að það þurfi að gera ákveðnar breytingar hvað það varðar. Þannig að miðað sé við það að þjóðin hafi um það að segja en þó þannig að það sé miðað við frumvarp sem var flutt hér á sínum tíma og lagt fram og fjallaði um það með hvaða hætti 79. gr. yrði breytt. Þar var miðað við að slíkt frumvarp þyrfti hafa verið rætt við fjórar umræður og að þrjár vikur skyldu líða á milli umræðna, hið minnsta.

Ég tel að það eigi ekki að hrapa að breytingu á stjórnarskrá og þess vegna sé eðlilegt að það sé ákveðið svigrúm, ákveðinn tími sem líði á milli umræðna þannig að það gefist ráðrúm til þess að gaumgæfa hvort um sé að ræða að menn séu á réttri leið. Ég tel þá hugmynd sem lögð var fram sem var afrakstur stjórnarskrárnefndar sem skipuð var í byrjun árs 2005 hafi verið miklu ásættanlegri og ákjósanlegri niðurstaða en 2. gr. frumvarpsins eins og hún hljóðar nú.

En ég hygg að ekki sé það mikill meiningarmunur á milli hvað þetta varðar og ég tel að það ætti að geta náðst fullt samkomulag um þá málsmeðferð. Þá liggur alveg fyrir að Alþingi Íslendinga sem verður kosið 25. apríl getur og hefur möguleika til þess að gaumgæfa og einhenda sér í að skipa þá sérnefnd um stjórnarskrármál og vinna þau mál alveg og nýta tímann til þess að koma með sjónarmið og hugmyndir sem máli skipta.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst það vondur bragur á því að við hér á lokadögum þingsins skulum þurfa að standa í ágreiningi og deilum um atriði sem við ættum að geta komið okkur saman um og ég tel að mundi skipta máli sérstaklega eins og nú háttar til í þjóðfélaginu að Alþingi kæmi sér saman um það að mæla með þessari breytingu á stjórnarskránni.

Þegar ég hóf þessa ræðu mína var hv. þm. Pétur Blöndal ekki mættur í salinn (Gripið fram í.) en ég var búinn að segja honum að ég hygðist taka sérstaklega fyrir ákvæði 1. gr. frumvarpsins þar sem ég reiknaði ekki með að við flokksfélagarnir hefðum algera samstöðu um með hvaða hætti ætti að túlka eða hvernig ætti að koma að. En úr því sem komið er reikna ég með að ég geymi það til síðari ræðu minnar sem ég vænti að verði þó á þessum sólarhring eða í byrjun þess næsta.

Það hafa margir velt því fyrir sér hvort það væri nothæft hugtak sem kemur fram í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga að tala um þjóðareign. Þar sem segir að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarréttindum séu þjóðareign. Þar hafa menn velt fyrir sér og ýmsir talað um að þarna væri um of óskýrt og óskilgreint hugtak að ræða. Þetta hugtak hefur verið rætt töluvert mikið og í sjálfu sér getum við farið í mjög fínar hártoganir á ýmsum hugtökum eins og t.d. því sem gæti fallið undir einmitt þessa hluti eins og, hvað er fullveldi? Hvað er einkaeign? Hvað er þjóð? Hvað er eign? Hvaða takmarkanir og tálmanir má setja?

Við gætum að sjálfsögðu farið út í slíkar umræður og það gætu verið mjög fróðlegar og fræðilegar umræður. Fræðimenn hafa reyndar látið til sín taka hvað þetta varðar en það er nú einu sinni þannig að ég tel að hugtakið þjóðareign sé þó það skýrt að það megi jafnvel og sé eðlilegt að notast við það í stjórnarskrá. Það skýrist vel hvað átt er við. Það mætti nota eign í umsjá ríkisins eða undir stjórn eða handhöfn ríkisins með sama hætti.

Fyrrverandi prófessor, Sigurður Líndal, hefur fjallað um þetta mál í grein sem hann skrifaði fyrir nokkru sem hét „Nytjastofnar á Íslandsmiðum og sameign þjóðarinnar“ þar sem hann fjallar sérstaklega um þjóðareignarhugtakið og þar segir, með leyfi forseta:

„Hvorki með setningu laga nr. 41/1979 né heldur framangreindum yfirlýsingum verður þjóðin né ríkið fyrir hennar hönd eigandi fiskimiðanna þar sem hvorugum eru fengnar þær almennu heimildir sem eignarrétti fylgja og nánar er lýst í II. kafla hér að framan. Er það að vonum enda ógerlegt þegar grannt er skoðað. Villtir og vörslulausir fiskar geta ekki verið andlag eignarréttar auk þess sem flestar aðrar heimildir eigenda skortir. Ef ákvæðið er túlkað á þann veg að með því sé eingöngu átt við þau atvinnuréttindi sem bundin eru við nýtingarrétt er eigi að síður ljóst að þjóðin hefur engar framangreindar heimildir eignarréttarins og í annan stað þarf meira til að tryggja eignarrétt heldur en almennt orðaðar yfirlýsingar.“

Þetta eru sjónarmið sem prófessor Sigurður Líndal hefur ítrekað sett fram í ræðu og riti en aðrir hafa haft önnur sjónarmið. Björg Thorarensen, sem var formaður þeirrar nefndar sem skipuð var til að semja það frumvarp sem hér liggur fyrir, hefur önnur sjónarmið en þau sem koma fram í þessum ummælum Sigurðar Líndals.

Þorgeir Örlygsson, sem var prófessor í lagadeild Háskóla Íslands, skrifaði merka grein á sínum tíma sem heitir „Hver á kvótann?“. Þar fjallar hann um þessi mál með nokkuð öðrum hætti en gert var í þeim tilvitnuðu orðum sem ég gerði hér grein fyrir. Hann bendir á að það megi finna ýmis dæmi í löggjöf að íslenska ríkið sé lýst eigandi tiltekinna verðmæta. Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi prófessor, bendir m.a. á ákvæði laganna nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, þ.e. fiskveiðistjórnarlögin þar sem bent er á þetta. Þá bendir hann á 1. mgr. 1. gr. námalaga nr. 24/1973 sem segir að landareign hverri sem háð sé einkaeignarrétti fylgi réttur til hagnýtingar hvers konar jarðefna sem þar finnast í jörðu eða með þeim takmörkunum sem lögin greina.

Það liggur fyrir að það er ákveðinn ágreiningur milli lögfræðinga um þetta atriði. Ég sem lögfræðingur tel ekki nein vandamál fólgin í því að skilgreina þetta hugtak eða nota það með þeim hætti sem þarna er gert. Ég er því ekki sammála þeim tilvitnuðu orðum Sigurðar Líndals sem ég gat um áðan, ég tel að hugtakið sé vel nothæft. En ég mun víkja frekar að því í síðari ræðu minni.