136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:24]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um atriði sem gætu leitt til stjórnskipulegs öngþveitis og ég tel miklu varða að komið verði í veg fyrir slíka hluti. Hv. þm. Atli Gíslason segir, eftir því sem ég fékk best skilið, að við séum að fjalla hér um hluti sem skipti engu máli en ég er honum algjörlega ósammála um það. Það skiptir öllu máli að komið verði í veg fyrir það á þessum tímum, þeim erfiðu tímum sem nú eru, að stjórnskipulegt öngþveiti skapist til viðbótar við önnur þau vandamál sem þjóðin á við að glíma. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Atli Gíslason sagði: Engin ný sjónarmið koma fram í þessum umræðum. Það er haft eftir Salómon, sem átti að hafa verið konungur í Ísrael á sínum tíma, að ekkert væri nýtt undir sólinni — hv. þm. Atli Gíslason virðist taka undir þau sjónarmið. Ég tel þó að með ræðu minni hér áðan hafi ég verið að leggja fram ný sjónarmið og ég á eftir að koma að mörgum fleiri atriðum vegna þess hve málið er lítt rætt. Hv. þingmaður segir að menn séu að móast við en vandamálið sem við stöndum frammi fyrir og vandamálið sem þingið stendur frammi fyrir er það að sérnefndinni um stjórnarskrá var stjórnað á þann veg af meiri hlutanum að gengið var á rétt okkar í minni hlutanum. Þegar við fórum fram á að málið yrði rætt í þaula í sérnefndinni — til þess að sérnefndin gæti náð samkomulagi í málinu, til þess að koma í veg fyrir langar umræður í þinginu — hafnaði formaður nefndarinnar og meiri hluti nefndarinnar því að sú leið yrði farin. Það er það sem meiri hlutinn situr uppi með. Hann ákvað að fara fram gjörsamlega í trássi við okkur sjálfstæðismenn, (Forseti hringir.) og situr því uppi með það að við nýtum okkur að sjálfsögðu stjórnskipulegan rétt okkar.