136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að fá nánari útlistun hjá hv. þingmanni á þjóðareign. Nú er þjóð í mínum huga afskaplega óljóst hugtak. Það eru til þjóðir sem eru í mörgum ríkjum, ég minni á Kúrda, og það eru til ríki sem hafa margar þjóðir innbyrðis, ég minni á Belga. Það er sem sagt spurningin um hvað er eiginlega þjóð.

Síðan gerist það, í þeim tillögum sem hér er rætt um, að ríkið fer með forsjá þeirra, þ.e. ríkið, sem í mínum huga er lögpersóna sem búin er til í stjórnarskránni, og er reyndar ekkert skilgreind þar nánar, það er dálítið athyglisvert — mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig lítur hann á þetta hvort tveggja?

Mér skilst að hv. þingmaður hafi ekki — það getur verið að hann hafi rætt það meðan ég var að labba hér yfir — rætt um auðlindir. Auðlind er dálítið merkilegt orð, væntanlega lind sem auður streymir úr, en mér finnst örla á skammtímahugsun í því sem menn segja hér um auðlindir. Einu sinni var Þjórsá t.d. til bölvunar fyrir mannkynið en nú er hún orðin auðlind, eða fossarnir í henni og vatnsaflið. Fiskurinn í sjónum var ekki sérstök auðlind þegar menn þurftu að fórna lífi sínu og gífurlegri orku í að veiða hann.

Spurningin er því þessi: Er ekki auðlind í rauninni mannvit eða mannauður? Það er mannauðurinn sem gerir auðlind úr vatnsföllunum. Getur ekki verið að eitthvað sem við þekkjum ekki enn verði síðar auðlind og falli þar með undir stjórnarskrána án þess að við vitum af því núna?