136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við getum ekki afgreitt hlutina bara með því að þeir séu fræðileg stjórnmál. Við hljótum að þurfa að ræða hvað þjóðareign þýðir og hvað auðlind þýðir, annað er ekki hægt. Hv. þingmaður nefndi hérna mikla uppfinningamenn. Ég tel að Bill Gates sé kannski mesti uppfinningamaðurinn og sá sem hefur uppgötvað mestu auðlindina sem til er. Hann er orðinn moldríkur af því að selja eitthvað sem er ekki efnislegt, því að það er ekkert efnislegt sem maðurinn hefur selt, hann hefur bara selt hugvit og er orðinn moldríkur af því. Það er vissulega auðlind ef því er að skipta. Mér finnst að menn geti ekki skautað yfir þetta svona og sagt: Við ætlum bara að taka stöðuna núna. Þetta er frumvarp til stjórnarskipunarlaga, við erum að setja stjórnarskrá sem á vonandi að gilda í mannsaldra. Mér finnst að í stjórnarskrá þurfi að vera atriði sem eru varanleg, virkilega varanleg, ekki einhver skammtímabóla. Nú eru t.d. fallvötnin talin vera auðlind, meðan þau eru óvirkjuð væntanlega, en þegar búið er að virkja þau, hvað eru þau þá, eru þau þá áfram auðlind eða hvað? Mig langar til að heyra nánar frá hv. þingmanni hvernig hann lítur á auðlind.

Svo er þetta með þjóðareignina, hvað er eign í þeim skilningi? Getur maður veðsett þetta, getur þjóðin farið að veðsetja þetta, getur hún farið að selja þetta eða hvað getur hún gert? Það er reyndar bannað þarna á eftir en getur þjóðin umgengist þessa eign sína eins og venjulegur maður umgengst eignir sínar, bílinn sinn o.s.frv.? Þá kemur spurningin: Hvað er eiginlega þjóð?