136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:54]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bara náði ekki — þetta eru nú fleiri hundruð blaðsíður sem við erum með þarna. En einhvers staðar segir að lagafrumvarp þetta byggi m.a. á því samkomulagi sem þessi minnihlutastjórn gerði sín á milli. (Gripið fram í.) Ef ég hefði lengri tíma gæti ég örugglega flett því upp. Það er ekki nema von þegar maður fjallar um þessa ráðgjafa að maður sjái að þeir hafa yfir sér pólitískt yfirbragð.

Og af því að þetta lýtur sérstaklega að Björgu Thorarensen set ég það í samhengi. Burt séð frá öllu er það staðreynd að hún var beðin um að sitja sem ráðherra í þessari ríkisstjórn og svo ætla ég ekkert að segja neitt meira um það. Þetta byggir náttúrlega á því pólitíska plaggi sem gert var á milli ríkisstjórnarflokkanna.

En varðandi stjórnlagaþingið held ég að ég hafi sagt það í ræðu minni — án þess að ég tali fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni — að ég hefði ekki sett mig upp á móti stjórnlagaþingi. Ég hef hins vegar sagt, og var þar m.a. að vitna í orð Sigurðar Líndals þar að lútandi þar sem hann hafði mjög miklar efasemdir um að það fyrirkomulag sem frumvarpið byggir á gæti einhvern tímann gengið. Hann lagði því til að stjórnlagaþing yrði sett saman með allt öðrum hætti. Það yrði ráðgjafahópur, hópur sérfræðinga, sem kæmi með tillögur en síðan gæti verið stjórnlagaþing með fulltrúum sem blessuðu tillögurnar sem færu svo inn í þingið — t.d. svoleiðis fyrirkomulag eða eitthvað allt öðruvísi.

En það sem ég gagnrýndi er að þessu skyldi ekki breytt. (Gripið fram í.) Af hverju var ekki rætt að ráðist yrði í þær aðgerðir sem virkilega skipta máli fyrir heimilin (Forseti hringir.) og fyrirtækin í landinu og stjórnlagaþingið (Forseti hringir.) lagt til hliðar en reynt að ná sáttum um hvernig stjórnlagaþingið skyldi starfa? (Forseti hringir.)