136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:41]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð kannski ekki þess heiðurs aðnjótandi að ná allri ræðu hv. þingmanns en það sem ég heyrði var athyglisvert og ýmislegt kom þar fram sem átti erindi við umræðuna. Það breytir ekki því að í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram er það svona lykilsjónarmið þegar kemur að stjórnlagaþinginu, lykilsjónarmið eða meginsjónarmið hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem hafa talað nokkuð í þessari umræðu og eiga margt ósagt enn ef marka má mælendaskrána, að ekki megi svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu. Það sjónarmið hefur verið undir og yfir og einhvern veginn ráðið för í þessu efni. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sjónarmiði, langt frá því.

Mér hefur hins vegar gengið erfiðlega að skilja eðlismuninn á þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi og þjóðkjörnum fulltrúum á stjórnlagaþingi, þ.e. í þeim skilningi að bæði þingin fá vald sitt beint frá þjóðinni þar sem uppspretta valdsins hlýtur að vera. Í öðru tilvikinu er um það að ræða að kosið er til Alþingis og eins og hér hefur tíðkast er yfirleitt kosið af listum, þetta er listakosning og þannig hefur þessu verið háttað, en hins vegar er hugmyndin um stjórnlagaþingið persónukjör. Það sem ekki hefur tekist í þessari umræðu af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er að gera grein fyrir þeim eðlismun sem er á því að vera þjóðkjörinn fulltrúi á stjórnlagaþingi og þjóðkjörinn fulltrúi á Alþingi. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir því að það mundi að einhverju leyti skýra (Forseti hringir.) það hvers vegna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja svona ríka áherslu á þetta.