136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:53]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég kann vel að meta það að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra séu hér húsinu, það er bara gott og jákvætt. En í umræðum eins og þessum finnst mér nú alltaf skemmtilegra að við sem á annað borð erum í húsinu séum hérna í salnum eða við salinn, þannig að raunveruleg umræða sé í gangi. Það henti reyndar hv. þingmann, sem talaði hér á undan mér, að hann missti af fyrri hluta ræðu minnar en seinni hluti ræðunnar varð til þess að hann kom upp í andsvör og við áttum málefnalega umræðu um hluta ræðunnar. En ég hef lofað honum því að endurtaka fyrri hlutann og við mæltum okkur mót í salnum svo að hann geti hlustað á hann.