136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft og skylt að svara fyrirspurn hv. þingmanns um 1. gr. frumvarpsins að því er varðar auðlindina og hvað hún þýðir, eins og hv. þingmaður nefndi. En eins og er í frumvarpinu, þ.e. að lýsa yfir eign þjóðarinnar á auðlindunum þá er því slegið alveg föstu að þeim megi ekki afsala varanlega til einstaklinga eða lögaðila og jafnframt er girt fyrir að einstaklingar og aðrir aðilar geti eignast beinan eignarrétt á þeim fyrir hefð og það er ákaflega mikilvægt að það liggi alveg klárt fyrir.

En auðvitað er brýnt að hafa í huga líka eins og ég sagði við 1. umr. málsins að þessu ákvæði í stjórnarskránni er ekki ætlað að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti af náttúruauðlindum eða atvinnurétti á grundvelli opinberra leyfa sem kunna að njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar sem óbein eignarréttindi. Ég held að það sé mikilvægt að hafa í huga líka.

Að því er varðar ákvæðið um stjórnlagaþingið, eins og raunverulega öll hin ákvæðin, þá voru fyrir níu dögum lagðar fram breytingartillögur af hálfu meiri hlutans til að koma til móts við sjálfstæðismenn en því hefur í engu verið svarað og ekki komið fram með neinar gagntillögur að því er varðar það að reyna að ná einhverri sátt um þessi mál.

Að því er varðar stjórnlagaþingið var auðvitað verið að koma þar líka til móts við sjálfstæðismenn sem höfðu allt á hornum sér af því að hér væri um ákvæði að ræða, að því er varðaði stjórnlagaþingið, sem kostaði svo mikið. Nú liggur það fyrir að búið er að koma til móts við það með því að breyta ákvæðum um stjórnlagaþing sem þýðir að það þarf þá ekki að kosta nema fjórðung af því sem þá var upphaflega sett fram og þá var það miðað við að 41 fulltrúi í fullu starfi væri á þessu þingi. (Forseti hringir.) Nú er búið að setja fram aðrar aðferðir einmitt til að koma til móts við fulltrúa sjálfstæðismanna.