136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki því sem ég spurði um varðandi 1. gr. Hv. þingmenn Jón Bjarnason og Guðbjartur Hannesson sögðu í umræddum sjónvarpsþætti að það stjórnarskrárákvæði sem hér er verið að leggja til fæli í sér 1. áfangann í því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Það var ekki verið að tala um eitthvert eignarhald, hugsanlega í framtíðinni, það var verið að tala um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Þeir túlka þetta frumvarp þannig.

Ég skil orð hæstv. forsætisráðherra eins og hún endurtók þau hér og eins og við höfum fyrir framan okkur úr ræðu hennar frá 1. umr. um málið að hún túlkar þetta með allt öðrum hætti. Hún túlkar þetta þannig að þetta breyti í engu núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það eigi eftir því sem hér segir ekki að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa öðlast, svo sem afnotarétti o.s.frv. og ekki hagga við slíkum réttindum eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda. Ég skil þetta þannig að í ræðu og orðum hæstv. forsætisráðherra felist sá skilningur að það sé ekki verið að breyta núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og því spyr ég hæstv. forsætisráðherra aftur, eru þá hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson og Jón Bjarnason sem tjáðu sig í sjónvarpinu áðan að misskilja málið?

Hitt sem ég vildi nefna er að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki spurningu minni varðandi stjórnlagaþingið. Hún svaraði því að komið hefði verið til móts við okkur sjálfstæðismenn. En hún svaraði því ekki hvort það hefði komið í ljós að það væri ekki þörf á svona viðamiklu stjórnlagaþingi eins og lagt var upp með í upphafi. Reyndist þá, þegar á hólminn var komið og farið var að skoða málið ofan í kjölinn, ekki þörf á jafnviðamiklum hugmyndum og lagðar voru fram í upphafi? Því spyr ég: Var vandað til verka þegar hugmyndin var upphaflega mótuð?