136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi ummæli sem höfð voru í þessum sjónvarpsþætti og vísað til tveggja þingmanna þá heyrði ég þau ummæli ekki og ætla þess vegna ekki að tjá mig um þau. En ég ætla einungis að segja hver skilningur minn var á þessu og ég get alveg endurtekið hann. Það er ekki verið að breyta afnotarétti af náttúruauðlindinni að því er varðar atvinnuréttindi sem hafa skapast, það er alveg ljóst en það er verið að tryggja varanlega í sessi að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Ég held að þetta sé alveg klárt og skýrt.

Varðandi stjórnlagaþingið þá fylgdi með útfærsla á stjórnlagaþinginu eins og það yrði útfært ef það yrði samþykkt og það var auðvitað hægt að breyta þeirri útfærslu sem þar lá fyrir. En það var verið að sýna með þessum hætti sem hér er lagt fram að það er hægt að fara ýmsar leiðir til að ná þessu markmiði. Meðal annars er hugmyndin í þeirri útfærslu sem nú liggur fyrir að nýta aðkomu sérfræðinga að þinginu og fræðimanna betur þannig að það þyrfti ekki að vera með þeim hætti að fulltrúarnir yrðu í fullu starfi. Það má auðvitað fara hvora leiðina sem er í þessu efni. En þetta varð niðurstaðan að fara þessa leið, m.a. til að ná niður kostnaðinum og hvor leiðin sem er er auðvitað fær í þessu efni. En þetta varð sú niðurstaða sem meiri hluti nefndarinnar komst að sem ég er alveg sátt við og það þýðir með engum hætti eins og hv. þingmaður heldur fram að eitthvað hafi verið kastað til höndum við þetta mál í upphafi. Það eru auðvitað til fleiri en ein leið í þessu efni og það var niðurstaða nefndarinnar að gera þetta með þessum hætti.

Ég vil enn undra mig á því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ekkert látið heyra í sér hvað varðar þær tillögur sem fyrir níu dögum voru lagðar fram af meiri hlutanum þar sem verulega var komið til móts við sjónarmið sjálfstæðismanna. Það hafa engar gagntillögur komið fram af hendi sjálfstæðismanna í þessu máli.