136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:15]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Nú er þar komið sögu í málþófsævintýri Sjálfstæðisflokksins að nokkrir máldjörfustu sjálfstæðismennirnir hafa notað ræðutíma sinn með þeim hætti að nú eiga þeir aðeins eftir þriðju ræðuna eða þriðju tegundina af ræðu, sem er sumsé í tilviki til dæmis Birgis Ármannssonar tíu mínútur af því að hér er um tvöfaldan ræðutíma að ræða. En ætlast var til þess í nýju þingskapalögunum að það væru fimm mínútur.

Þess vegna væri fróðlegt að fá að vita núna, forseti, hvernig háttar til um ræðumenn á mælendaskrá, hverjir þeir séu, hvað þeir séu margir og í hvaða röð þeir ætli að mæla því það getur ekki verið meiningin að hv. þm. Birgir Ármannsson og Illugi Gunnarsson ætli að brúa alla nóttina með tíu mínútna ræðum. Það hlýtur að vera þannig að ræðumenn annaðhvort koma — sérstaklega þeir sem ég er að bíða eftir til dæmis hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir en ég bíð í ofvæni eftir því að vita hvað hún hefur um þetta mál að segja — koma á þeim tíma sem þeir hafa skráð sig (Forseti hringir.) en ekki þannig að það séu einhverjir strákar hlaupandi inn í ... hv. þingmenn eða ekki, hlaupandi inn í (Forseti hringir.) í mælendaskrána bara eftir því sem þeim hentar. Forseti hlýtur að koma í veg fyrir það.