136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka forseta fyrir að hleypa mér inn í þessa röð þingmanna stjórnarflokkanna sem hér halda uppi miklum umræðum um fundarstjórn forseta.

Ég vil taka það fram að mér finnst þær árásir sem ég hef heyrt hér úr þessum ræðustól á forseta núna síðustu mínúturnar vera mjög ómaklegar þegar gefið er í skyn að einhverjir þingmenn njóti sérkjara og sérréttinda og þar með er forseti ásakaður um það að mismuna þingmönnum, sem mér finnst ómaklegt og held að séu ekki forsendur fyrir.

Þetta hefur verið skýrt hérna. Ég las úr viðkomandi ákvæði þingskapa áður sem sýnir glögglega að forseti hefur mjög rúmar heimildir til þess að víkja frá röð ræðumanna í sambandi við umræður hér á þingi og held að við ættum að gera meira af því í þessari umræðu að víkja frá þeirri röð sem menn biðja um orðið til dæmis til að gefa hv. (Forseti hringir.) þingmönnum stjórnarflokkanna fleiri tækifæri til þess að koma hér inn í umræðuna og svara þeim fjölmörgu spurningum sem til þeirra er beint (Forseti hringir.) og fjölmörgu athugasemdum sem ósvarað er í þessari umræðu.