136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég stíg aftur í ræðustól og hef fengið tækifæri til að eiga orðastað við einn af þeim hv. lykilþingmönnum sem hafa lagt fram þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Áður en ég vík að því vil ég endurtaka þakkir mínar til forseta frá því fyrr í kvöld fyrir að hafa veitt þingmönnum tækifæri til að fylgjast með framboðsfundi vestur á Ísafirði. Það er auðvitað nýtt fyrir okkur að við skulum enn vera á þingi þegar framboðsfundir eru hafnir og kosningabaráttan farin af stað.

Ég vil sérstaklega nota tækifærið, vegna frammíkalla og framgöngu hv. þm. Marðar Árnasonar, til að gera athugasemd við það að hann hafi lagt að jöfnu framboðsfund í Norðvesturkjördæmi, á Ísafirði, og knattspyrnuleik og saumastofufund eða saumaklúbb. Þessi orð dæma sig auðvitað sjálf, þau eru óviðeigandi. Menn eiga ekki að tala svona, hvorki um íbúa Norðvesturkjördæmis né aðra íbúa á Íslandi. Framboðsfundir eru mikilvægir, skipta máli, og það væri auðvitað skynsamlegt af hv. þm. Merði Árnasyni að draga þessa ummæli sín til baka. Ég verð að játa það að ég ætla ekki að halda niðri í mér andanum þangað til það gerist. Ég reikna með að ég mundi ekki lifa slíka bið af.

Þá að efni málsins. Ég sá að hér skaust hæstv. fjármálaráðherra á milli herbergja. Ég vil spyrja hann, rétt eins og hv. þm. Birgir Ármannsson spurði hæstv. forsætisráðherra áður, hvaða skilning hæstv. ráðherra leggur í orðið þjóðareign. Er hæstv. fjármálaráðherra sammála hæstv. forsætisráðherra og þeim skilningi sem þar kemur fram? Eða er hæstv. ráðherra sömu skoðunar og t.d. formaður þingflokks Vinstri grænna, hv. þm. Jón Bjarnason? Hann lýsti því yfir á framboðsfundi, sem ég efa ekki að hæstv. fjármálaráðherra hefur fylgst með af gerhygli, að hér væri um að ræða fyrsta skrefið í meiri háttar breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Ástæðan fyrir að þetta skiptir máli er sú að það hefur komið fram — í þeim álitum sem hafa verið lögð fyrir hér á þinginu og í þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við það, m.a. frá virtum lagaprófessorum — að nokkur vafi leiki á því hver áhrif þessa orðalags í ákvæðinu muni verða. Þetta hefur komið fram með mjög skýrum hætti. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni álit þeirra lögvitringa sem eru þeirrar skoðunar að hugtakið sé merkingarlaust og til óþurftar þess vegna en þetta skiptir gríðarlega miklu máli og við höfum verið að reyna að kalla svar við þessu fram hjá flutningsmönnum og hjá þeim sem bera ábyrgð á framgöngu þessa máls á þinginu. Af hverju erum við að reyna að kalla það fram? Af því að við viljum fá þetta á hreint. Ef einhver mál rísa upp vegna þessa, þurfa að fara til dómstóla, þá skiptir máli hvað hér hefur komið fram, að ekkert misræmi sé í málflutningi, menn hafi þetta nákvæmlega á hreinu. Menn hafa af því áhyggjur að hér sé verið að auka á óvissuna kringum meginatvinnugrein íslensku þjóðarinnar. Ég er ánægður með að hæstv. fjármálaráðherra er í salnum til að svara og vænti þess að fá svar við þessari fyrirspurn minni.

Ég vildi jafnframt velta upp atriðum sem snúa að hinu fyrirhugaða stjórnlagaþingi. Ég verð að segja eins og er að það hefði verið bragur á því fyrir Alþingi, úr því að menn gerðu þessar breytingar á fyrirhuguðu fyrirkomulagi stjórnlagaþingsins, að menn ynnu og legðu fram frumvarp sem sýndi nákvæmlega hvernig menn sæju fyrir sér framkvæmd þessa stjórnlagaþings. Mér finnst enginn bragur á því að skella bara inn í nefndarálitið setningum eins og þessum, með leyfi virðulegs forseta:

„Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að setja hlutina fram með þessum hætti. Hvers vegna í ósköpunum gáfu menn í nefndinni sér ekki betri tíma, kölluðu á sinn fund sérfræðinga og gerðu þetta með einhverjum þeim hætti að hægt sé að leggja þetta fram á Alþingi. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð, þau eru í takt við það sem ég nefndi í ræðu minni fyrr í kvöld. Maður hnýtur um orðalagið í þessu nefndaráliti, undarlegar setningar eins og þá sem ég las upp, með leyfi forseta. Ég vil nota tækifærið og vekja sérstaka athygli hæstv. fjármálaráðherra á þessu, ég veit að hann hefur ábyggilega skoðun á þessu. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar.“ — En ekki hvað? Mér finnst þetta álit, þegar maður les þetta, þegar kemur að kaflanum um stjórnlagaþingið, einfaldlega ekki boðlegt. Menn hafa ekki vandað sig við þessi skrif, menn hafa ekki vandað sig við þessa hugsun. Það er einmitt svona plagg eins og þetta sem skiptir máli. Þegar menn eru síðan að skýra stjórnarskrána, ákvæði hennar, og reyna að átta sig á því hvað stjórnarskrárgjafinn vildi þá verða þessir hlutir að vera betur úr garði gerðir en hér um ræðir. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð.

Svo er hitt að ég sakna mjög fulltrúa Framsóknarflokksins í þingsal. Það er vitað að sá flokkur hefur lagst einna þyngst á árarnar þegar um stjórnlagaþingið er að ræða. Þetta er mál sem sá flokkur hefur borið fram af hvað mestri ákefð og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var formaður nefndarinnar. Það er því til baga að ekki skuli vera neinn fulltrúi frá þeim flokki í umræðunni. Enn er því ósvarað hvernig menn sjá það fyrir sér að það gangi upp að menn hafi, eins og sá flokkur að eigin sögn, ekki umboð til að setja ráðherra í ríkisstjórn, séu þeirrar skoðunar að Alþingi hafi hvorki stöðu né umboð til að setja stjórnarskrá, og því verði að setja sérstakt stjórnlagaþing á laggirnar, og standi svo á sama tíma að því að stjórnarskránni sé breytt eins og kveðið er á um í 1. gr. þess frumvarps sem hér er um að ræða. Það er undarlegt hvernig menn geta sett málin fram. Við ættum að geta gert þá kröfu til hv. þingmanna, sem að þessu máli standa, að þeir útskýri það hvernig standi á því að þeir telji að þingið geti ekki gert breytingar á stjórnarskránni en ætla samt sem áður að gera það, eru með klára tillögu um breytingar á stjórnarskrá. Það er 1. gr. sem hér er lögð fram þannig að það virðist ekki vefjast fyrir mönnum. Að sjálfsögðu er það svo að Alþingi Íslendinga bæði á og getur gert þær breytingar sem þarf að gera á stjórnarskránni hverju sinni. Það hefur sýnt sig í þingsögunni að það hefur verið gert.

Hitt er aftur á móti alveg jafnljóst, og verður ekki nægilega áréttað úr þessum ræðustól, virðulegi forseti, að fara á varlega þegar kemur að stjórnarskrárbreytingu, menn eiga að undirbúa þær vel, gefa sér allan þann tíma sem þarf. Menn eiga að hafa umræður á Alþingi og í þingsölum sem eru samboðnar stjórnarskránni. Menn eiga ekki að þurfa að standa frammi fyrir hálftómum eða jafnvel tómum þingsal. Það er ekki boðlegt fyrir þingið. Við eigum að hafa meiri metnað, við þingmenn, þegar kemur að stjórnarskránni en birtist í þeim undirbúningi sem hér hefur verið unninn, meiri metnað en birtist í þeim umræðum sem hafa verið um stjórnarskrána. Ég óttast það mjög að dómurinn sem verður felldur um þessi vinnubrögð verði ekki góður fyrir Alþingi. Það er ekki við Alþingi sjálft að sakast heldur við þá sem borið hafa fram málið með þessum hætti.

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum lagt allt kapp á það að taka þátt í umræðunum. Við höfum verið tilbúnir til að hliðra til fyrir öðrum þingmönnum þannig að þeir kæmust inn í umræðuna ef þeir hefðu fram að færa efnislegar athugasemdir eða góðar ræður. Aðalatriðið er að við viljum betri umræðu um þetta en orðið hefur.