136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í öllum tilvikum nema einu er hér um að ræða þaulkunnug mál sem lúta að einföldum og tiltölulega skýrum efnisbreytingum á stjórnarskránni og öll hafa þau verið rædd rækilega í störfum stjórnarskrárnefndar og síðustu nefndar sem starfaði. Það er um sameign á náttúruauðlindum sem ekki eru háðar einkaeignarrétti. Það er um að breyta aðferðinni við að setja eða afgreiða stjórnarskrá þannig að þjóðin kjósi um hana sjálf. Það er um einhvers konar útfærslu á beinu lýðræði.

Nýmælið er stjórnlagaþingið sem með þessu frumvarpi er í raun og veru einungis verið að gefa stöðu í stjórnarskránni þannig að Alþingi geti í kjölfarið útfært nánari tilhögun þess með lögum.

Þetta er ekkert óskaplega flókið. Það sem er flókið er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa getað talað hér í tugi klukkutíma án þess að rökstyðja það nokkurn tíma nákvæmlega og efnislega af hverju þeir eru á móti sameign á náttúruauðlindunum. (Forseti hringir.) Af hverju eru þeir á móti beinu lýðræði? Af hverju eru þeir á móti því að stjórnarskránni sé breytt í beinni kosningu? Hvað er það nákvæmlega sem þeir geta ekki sætt sig við að þjóðin setji sér sjálf stjórnarskrá með því að kjósa til stjórnlagaþings?

Varðandi spurningar hv. þingmanns þá svaraði hæstv. forsætisráðherra sömu spurningum frá öðrum hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins mjög vel hér áðan og ég tek undir svör hennar.

Ákvæðið um sameign á náttúruauðlindum styrkir núgildandi 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og gerir það fortakslaust, að um ævarandi sameign þjóðarinnar er að ræða sem ekki má selja eða láta af hendi varanlega. Þetta styrkir sömuleiðis þær breytingar í orkulögum sem hér voru settar um að auðlindir í eigu opinberra aðila, orkuauðlindir í eigu opinberra aðila verði ekki varanlega framseldar. Það hefur sjálfstætt gildi. Það styrkir þá hugsun í sessi að þetta sé sameign þjóðarinnar en færi þær ekki til einkaaðila né nein önnur ráðstöfun þeirra myndi aldrei eignarrétt í óafturkallanlegt forræði. Þetta var sett inn í lög um stjórn fiskveiða þegar 1990. (Forseti hringir.) Og sjálfstæðismenn eru enn að pexa um þetta. Skýringin hlýtur að vera sú (Forseti hringir.) að þeir geta ekki sætt sig við sameign þjóðarinnar á þessu.