136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þetta sé útskýrt í gögnum málsins með algjörlega skotheldum hætti. Í beinu framhaldi af því að tala um þjóðareign er tekið fram að ríkið fari með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hafi eftirlit með nýtingu þeirra. Þetta er sameign þjóðarinnar (Gripið fram í.) sem ríkið hefur með höndum að gæta að og varðveita og ráðstafa í hendur þeirra sem síðan nýta í þágu þjóðarinnar allrar.

Ég held að þetta sé algerlega skýrt. Allar æfingar sjálfstæðismanna um annað fara nú fyrir lítið að mér finnst. Íslensk tunga er auðug og geymir mörg góð orð en við vitum öll hvað þetta þýðir. Við erum að tala um ævarandi sameign þjóðarinnar sem byggir Ísland, að hún eigi tiltekna hluti saman. (Gripið fram í.) Og að ríkið fari með ríkisvaldið, það stjórnkerfi sem við sameiginlega setjum upp til að fara með okkar sameiginlegu mál. Það hefur það verkefni með höndum (Gripið fram í.) að gæta þessara hluta og sjá um varðveislu þeirra og stjórna nýtingu þeirra.

Varðandi aðrar athugasemdir sem hv. þingmaður gerði varðandi stjórnlagaþing og ég hafði ekki tíma til að svara í fyrra svari mínu hefur það nú einfaldast í meðförum. Ég vænti þess að hv. þingmenn séu ánægðir með það. Það er boðið upp á það hér að lagfæra hlutina og einfalda þá og m.a. draga úr kostnaði og ég fagna því auðvitað sérstaklega í núverandi embætti mínu.

En að öðru leyti lutu athugasemdir hv. þingmanns aðallega að því sem meiri hluti nefndarinnar reifar í nefndaráliti sínu og lýtur að mögulegu inntaki væntanlegs frumvarps sem sett verður á grundvelli stjórnarskrárákvæðisins. Það eru ekki lögskýringargögn gagnvart stjórnarskrárákvæðinu sem slíku og alveg ástæðulaust að flækja málin hér með því að velta mikið vöngum yfir því. Það eru bara hugmyndir þessa meiri hluta um það hvernig æskilegt sé að búa kannski um þessa hluti í væntanlegri löggjöf.