136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þannig að nú þegar eru komnar upp deildar meiningar um hver sé tilgangur og eðlisinntak þess ákvæðis sem hér um ræðir, þ.e. þjóðareignarinnar. Formaður þingflokks Vinstri grænna hefur lýst því yfir á opinberum vettvangi á framboðsfundi að hér sé um að ræða fyrsta skrefið til þess að gjörbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu á sama tíma og hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir að svo sé ekki. Við þetta bætist síðan sá vafi sem ég lýsti áðan hjá ýmsum lögspekingum um réttarfarsleg áhrif þessa ákvæðis.

En það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að hér er um að ræða ríkiseign. Það sem ég skil reyndar ekki í þessu, úr því að menn eru sammála um að það sé verið að tala um að það verði ríkið sem eigi þessar auðlindir, hvers vegna setja menn það bara ekki inn í stjórnarskrána? Af hverju eru menn að standa í þessu með þessum hætti? Ég veit að það hljómar betur að segja þjóðareign.

En hið rétta er og það kom einmitt réttilega fram hjá hæstv. ráðherra að um er að ræða ríkiseign. Það er ekkert annað og það er einmitt í góðu samræmi við þær athugasemdir sem lögspekingar hafa gert, margir hverjir, að hugtakið þjóðareign sé of óljóst. Þannig að það sé ekki hægt að nota hugmyndir manna um eignarrétt og eðli hans í þessu samhengi. Það er einmitt þess vegna sem ríkið kemur inn. Það verður einmitt þessi vörsluaðili. Það verður sá aðili sem getur borið eignarréttinn. Þannig held að það standi nákvæmlega af sér.

Hvað varðar óljósar útfærslur á þessu öllu saman, hvað varðar stjórnlagaþingið þá hefði í fyrsta lagi verið hægt að breyta því í meðförum þingsins og til hins betra tel ég. En það er þó þannig að þær breytingar sem gerðar hafa verið í nefndarálitinu eru illa rökstuddar. Þar er vísað til þess að það þurfi styttri tíma vegna þess að væntanlega muni stjórnlagaþingið hafa samráð við hagsmunaaðila og ýmsa sérfræðinga. Þar með var starfstími stjórnlagaþingsins styttur um hálft ár og þetta var notað sem rökstuðningur í áliti meiri hlutans. Mér finnst það nú (Forseti hringir.) vera svona frekar þunnur rökstuðningur. Ég hefði viljað sjá þetta betur unnið, meira unnið (Forseti hringir.) út í smáatriði (Forseti hringir.) þannig að við vissum nákvæmlega hvað við værum að tala hér um.