136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:18]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hafa komið fram athugasemdir við hvað felst í hugtakinu þjóðareign. Í greinargerð meiri hlutans segir, með leyfi herra forseta:

„Í því sambandi ítrekar meiri hlutinn að með hugtakinu þjóðareign er átt við sérstaka tegund eignarhalds til hliðar við hefðbundinn einkaeignarrétt einstaklinga og lögaðila, og er hér byggt á skilgreiningu auðlindanefndar frá árinu 2000. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu felst í þessu að ríkinu er samkvæmt lögum fenginn hinn sérstaki eignarréttur á náttúruauðlindum í skjóli þess að enginn annar lögaðili eða einstaklingur hefur getað sannað eignarrétt sinn á þeim. Meiri hlutinn telur hugtakið þjóðareign skýrt og ítrekar að ákvæðinu er ekki ætlað að hrófla við beinum eða óbeinum eignarréttindum sem menn hafa þegar öðlast á náttúruauðlindum.“

Ég spyr hv. þingmann Sigurð Kára Kristjánsson: Telur hann að aflaheimildir sem úthlutað er í dag og hafa færst á tiltölulega fáar hendur séu háðar beinum eignarrétti eða að þeir sem hafi þessar aflaheimildir, fá þær úthlutaðar til nýtingar, þ.e. að það sé óbeinn eignarréttur? Ég óska eftir því að hv. þingmaður svari því nákvæmlega.

Þegar hér er ítrekað vísað í að umsagnaraðilar hafi talað um ákvæðið væri óskýrt þá er það bara ekki rétt. Helstu lögspekingar sem fyrir nefndina komu höfðu þetta hugtak algerlega á hreinu, Björg Thorarensen og margir fleiri.

Þær athugasemdir sem komu fram við 1. gr. lutu fyrst og síðast að 2. og 3. mgr. sem hafa verið felldar út úr frumvarpinu með breytingartillögum nefndarinnar, meiri hluta nefndarinnar. (Gripið fram í: Hvað með ...?) Aðalatriðið er þetta: Eru sjálfstæðismenn inni á því að aflaheimildirnar séu háðar beinum eignarrétti eða ekki? Þjóðin (Forseti hringir.) þarf að fá að vita þetta.