136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriðið er þetta, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Svaraðu því hvort þú ert sammála áliti Guðrúnar Gauksdóttur eða ekki. Hv. þingmaður er löglærður og hann getur lýst skoðun sinni hérna á því hvort þeir sem fara með aflaheimildir eða hafa þennan nýtingarrétt hafi beinan eða óbeinan eignarrétt. Hver er hans pólitíska skoðun á því? Þjóðin á rétt á að fá að vita þetta. Það á ekki að halda hér uppi hálmstráum sem eru farin að hlaðast upp í heila heysátu. Komið þið skýrt og glöggt fram með skoðanir ykkar á þessu máli. Það er aðalatriðið. Er um að ræða beinan eða óbeinan eignarrétt? (BjarnB: Hvað þýðir ...) Ég verð að vekja athygli á því ... Hv. formaður Sjálfstæðisflokksins, hættu nú að grípa fram í þegar menn tala hér. (Gripið fram í.) Hættu að grípa hér fram í. (Gripið fram í.) Það hefur komið hér fram að efnahagshrunið megi að verulegu leyti rekja til ákveðinna þátta sem tengjast þessu kerfi, að verið sé að ráðast á íslenska hagkerfið og að það sé meining hinna erlendu innrásarseggja, erlendra kröfuhafa að ná undir sig náttúruauðlindunum. Er þá ekki rétt að samþykkja þetta ákvæði til að koma í veg fyrir það eða vilja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki koma í veg fyrir að náttúruauðlindirnar fari undir erlend yfirráð eða í eignarhald örfárra innlendra aðila? (Gripið fram í.) Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða að segja þjóðinni frá því hvort aflaheimildirnar séu bundnar beinum eignarrétti eða ekki. Hún á rétt á þeim svörum, skýrum svörum.