136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þm. Atli Gíslason er svona æstur. Kannski er það vegna þess að ég tel upp ummæli miklu fleiri fræðimanna á sviði lögfræði sem styðja mín sjónarmið í þessu máli en hann getur nokkurn tímann gert og að tengja þetta stjórnarskrárfrumvarp við hrun fjármálakerfisins er alveg fáránlegt af hálfu hv. þingmanns. Það kemur beinlínis fram í skýrslu finnska sérfræðingsins Kaarlos Jännäris að regluverkið hér á landi hafi ekki verið þess eðlis að það hafi leitt til hruns fjármálakerfisins. Það á hv. þm. Atli Gíslason að vita. Þetta er sérfræðingur sem starfaði fyrir ríkisstjórnina og það er ekkert í þeirri skýrslu sem bendir til þess að ríkisstjórn Íslands þurfi að breyta stjórnarskránni til þess að bregðast við hruni fjármálakerfisins þannig að ég frábið mér nú einhverjar svona yfirlýsingar. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður spurði mig um mínar pólitísku skoðanir á því hvort ég væri sammála Guðrúnu Gauksdóttur og hvort ég væri þeirrar skoðunar að aflaheimildir í sjávarútvegi væru undirorpnar beinum eða óbeinum eignarrétti. Ég var í ræðu minni að reyna að fara yfir það með hvaða hætti lögfræðingar hefðu túlkað þetta ákvæði og ég las upp úr tilvitnunum í það. Það er nú það sem ég var að reyna að gera hérna. Ég var að reyna að tala það mál sem hv. þingmaður ætti að skilja en virðist ekki hafa gert. Ég er þeirrar skoðunar og ég hallast að því að Guðrún Gauksdóttir, eini doktorinn á Íslandi í eignarrétti hafi ýmislegt til síns máls. Ég held það

Mér þætti vænt um það ef hv. þingmaður Atli Gíslason mundi lýsa því yfir hér að hann teldi (Forseti hringir.) að aflaheimildir í sjávarútvegi yrðu teknar af mönnum (Forseti hringir.) bótalaust. Ef hann svarar þeirri (Forseti hringir.) spurningu játandi, (Forseti hringir.) herra forseti, þá er hann þeirrar skoðunar að þær séu ... (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)