136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða með allra óvenjulegasta móti þegar klukkan er að slá í eitt — ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson eigum að fara að ræða um það sem er mögulegt og ekki mögulegt að breyta í málinu. Þetta undirstrikar það sem ég var að segja áðan að það er langskynsamlegast að þetta mál fari aftur inn í nefnd til frekari skoðunar.

Það er allt mögulegt í viðræðum milli flokkanna á þeim vettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að ríkisstjórnum sem hafa haft það á stefnuskrá sinni að færa ákvæði um þetta efni í stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að frumvarpi árið 2007 sem innihélt tillögu um sama atriði. Það er tvennt sem skiptir meginmáli í því frumvarpi og um það er fjallað í greinargerð í frumvarpinu. Það skiptir miklu máli að það eru ýmsar auðlindir sem lengi hafa verið annaðhvort háðar einkaeignarrétti eða þá að einstaklingum og lögaðilum hafi verið úthlutað heimildum til nýtingar þeirra og að slík réttindi skuli verja og vernda þrátt fyrir nýtt stjórnarskrárákvæði — það er sem sagt í fyrsta lagi mikilvægt að það sé ekki ætlunin að hagga við slíkum eignar- eða afnotarétti en á sama tíma er mikilvægt að tekin séu af öll tvímæli um að óbein eignarréttindi tengd (Forseti hringir.) nýtingarheimildum muni ekki leiða til beins eignarréttar.