136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:03]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér upphaflega að spyrja forseta að því hve lengi hann ætlaði á láta þingfund standa hér. Það er búið að boða þingfund klukkan hálfellefu í fyrramálið og það er mjög gott fyrir okkur þingmenn að vita hvað þingfundur á að standa langt fram á nótt. Meira að segja hetja hafsins, Grétar Mar Jónsson, hv. þingmaður er horfinn á braut þrátt fyrir það að segjast vera tilbúinn til þess að vaka í það óendanlega.

En nú hefur bæst við og komið sérstaklega fram að formaður sérnefndar um stjórnarskrármál lýsti því yfir að það væri ef til vill ástæða til að taka málið inn í nefndina aftur. Hér situr annar þingmaður í meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason, og spurningin er hvort hann sé sama sinnis og hvort það sé ekki eðlilegt miðað við það að þessi tilmæli hafa komið fram frá starfandi formanni nefndarinnar að verða við þeim og slíta nú umræðunum og freista þess að ná samkomulagi um málið.