136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:04]
Horfa

Ásta Möller (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það virðist sem nú á síðustu mínútum sé kominn nýr flötur í málið. Mér heyrist vera þannig tónn bæði í hv. formanni þingflokks Samfylkingarinnar Lúðvíki Bergvinssyni og jafnframt formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að það gæti verið grundvöllur fyrir því að fresta umræðunni og taka málið til nefndar.

Ég er fyrir mína hönd og þingflokks sjálfstæðismanna fylgjandi því að hafa þann gang í málinu og ég hvet hæstv. forseta að taka af skarið og fresta nú þegar umræðunni og taka málið inn í nefndina til að freista þess að ná sameiginlegri niðurstöðu og sátt í málinu. Við værum alveg til í að taka þann snúning með hæstv. forseta.