136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka tillögur og óskir um svör virðulegs forseta um hvað hann hyggist gera vegna þessa. Nú er komin fram tillaga, virðulegi forseti, um að fresta hér fundi og kanna hvort möguleiki sé á því að málið verði sett í nefnd. Síðan er önnur spurning sem hefur verið beint til forseta og forseti hefur ekki enn þá hirt um að svara. Hún er sú hversu lengi virðulegur forseti hyggst, ef ekki verður tekið tillit til þessarar sáttatillögu, halda áfram þingfundi í nótt. Það eru nefndafundir í fyrramálið og menn eiga að vera hér að störfum fram eftir allri nóttu.

Ég ætla ekkert að vitna í orð hv. þingmanna stjórnarliða, hvernig þeir hafa talað þegar næturfundir eru en það er alveg á hreinu að virðulegur forseti verður að gefa einhvern ádrátt um það hversu lengi hann ætlar að halda áfram, fram eftir nóttu með þetta mikilvæga mál.