136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:34]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Péturs Blöndals var athyglisverð um margt. Meðal annars heldur hann því fram að stjórnarskráin sé frekar heimspeki en lög. Ég get ekki verið sammála honum um það vegna þess að stjórnarskráin er náttúrlega grundvallarlög íslenska ríkisins. Hins vegar eru stjórnarskrár til orðnar vegna þeirra heimspekihugmynda sem urðu til á sínum tíma á 17. og 18. öld þannig að í sjálfu sér skila þær sér inn eftir langar og miklar umræður.

Síðan var hv. þingmaður í heimspekilegum hugleiðingum eins og það hvað væri auðlind og hvernig ætti að skilgreina það hugtak. Ég velti þá fyrir mér spurningu sem er í byrjendanámskeiði í heimspeki þar sem spurt er: Heyrist hljóð úti í skógi þar sem tré fellur og enginn er nálægt? Menn geta svo velt fyrir sér svarinu við því.

Hv. þingmaður vildi skilgreina auðlind með þeim hætti að það væri ekki auðlind nema hinn mannlegi máttur kæmi þar að og þá spyr ég: Er gullnáma á eyðiey auðlind eða ekki? Eða eru hugsanlegar olíulindir á Drekasvæðinu auðlind þó að þær séu ekki nýttar eða hafi ekki fundist? Svar mitt er já, auðvitað eru þetta auðlindir. Að sjálfsögðu er það síðan dómstóla að skera úr og fjalla um með hvaða hætti slíkt er á hverjum tíma. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að skilgreiningar og viðmiðanir breytast í tímans rás. Hins vegar er það svo að löggjöfin, þjóðfélagið tekur breytingum og dómstólar hafa alltaf heimildir og nýta sér heimildir til að skilgreina með hvaða hætti og hvernig á að skilja einstök ákvæði þess vegna stjórnarskrár sem og annarra laga.