136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:38]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var óttalegur útúrsnúningur því að ég spurði einfaldlega: Er gullnáma á eyðiey auðlind þó hún hafi ekki verið tekin í notkun? Eru olíulindirnar á Drekasvæðinu auðlind? (Gripið fram í: Nei.) Það er í sjálfu sér hægt að svara því og ég tel að þær séu auðllind. Það á bara eftir að finna þær og nýta.

Hv. þm. Pétur Blöndal velti líka fyrir sér hugtakinu ríki og þjóð. Þetta eru ekki hlutir sem þarf að velta mikið fyrir sér eða vandræðast mikið með. Það er hins vegar hárrétt athugun hjá hv. þingmanni að það er iðulega þannig að innan sama ríkis eru jafnvel margar þjóðir. Við getum tekið land eins og Tékkóslóvakíu sem var í raun tilbúið ríki sem var búið til í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar. Það sundraðist síðan og var lagt undir þýska stórríkið í seinni heimsstyrjöld og var síðan myndað aftur. Í sjálfu sér voru engar forsendur fyrir því að þetta ríki starfaði sem eitt ríki og það klofnaði síðan í tvennt í Tékkland og Slóvakíu. Þar voru þær tvær þjóðir skilgreindar með eðlilegum afmörkunum. Menn geta velt fyrir sér Afganistan þar sem eru margar þjóðir en samt sem áður er það eitt ríki. Sviss er dæmi um land sem með ákveðið sambandsríki vegna þess að þar eru mismunandi hópar sem koma að. Belgía er hins vegar land þar sem eru tveir meginflokkar. En þetta eru samt sem áður eitt ríki og þetta veldur engum vandamálum í skilgreiningu hvað þetta varðar og þarf ekkert að velta því fyrir sér. Sér í lagi ekki hér á landi þar sem það liggur mjög vel fyrir hver eru hin ytri mörk ríkisins, þ.e. það er afmarkað af hafinu í kringum landið og við erum því ein einsleitasta þjóð sem til er í veröldinni. Þessar hugleiðingar hv. þm. Péturs Blöndals gætu átt við ef hann væri þingmaður í Belgíu, Sviss eða Afganistan en varla hér.