136. löggjafarþing — 127. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[02:13]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Liðið er nokkuð langt á nóttina nú, klukkan að ganga langt í þrjú þegar við höldum áfram umræðunni um stjórnarskrána, frú forseti. Fram hefur komið í kvöld ákveðinn vilji af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins um að þetta mál verði tekið inn í stjórnarskrárnefnd undir 2. umr. og könnuð leið til að ná samkomulagi um það. Af orðum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, formanns stjórnarskrárnefndar, má skilja að þarna hafi kannski verið kominn ákveðinn flötur á það að þingheimur reyni að ná samkomulagi um málið. Mér finnst mikið til þess vinnandi að svo verði.

Það er ljóst af umræðunni, 2. umr. sem hér hefur farið fram að við komumst ekki miklu lengra í henni í sjálfu sér umfram það að gera grein fyrir sjónarmiðum sjálfstæðismanna og fara rækilega yfir málið eins og við höfum reynt að gera. Enn eru margir sem vilja tjá sig í málinu en engu að síður held ég, vegna þess að þessi tillaga kom fram í umræðunni, að það sé hlutverk okkar þingmanna að reyna að láta á málið reyna og sjá hvort við getum náð samkomulagi um það þannig að við getum snúið okkur að þeim brýnu verkefnum öðrum sem fyrir þinginu liggja og lokið síðan þingstörfum hratt og vel og tekið til við næsta kafla sem er að undirbúa og tala við kjósendur í landinu.

Jafnvel þó að ég sé í sjálfu sér sammála því að við alþingismenn í þeirri erfiðu aðstöðu sem hér er eigum að vera að sinna þeim verkefnum sem snúa að fjölskyldunum og fyrirtækjunum — við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir því í þessari umræðu og raunar allar undanfarnar vikur að við mundum styðja þau brýnu mál sem fyrir liggja — kemur alltaf að því í aðdraganda kosninga að stjórnmálamenn og þeir sem leggja stefnu sína fyrir kjósendur þurfi að eiga orðastað við þá. Við höfum öll fundið það sem erum í þessum sal að það er ekki síst núna sem fólkið í landinu þarf á því að halda að heyra hver sjónarmið flokkanna eru til þess verkefnis sem fram undan er. Við þurfum að gera grein fyrir því hvað hefur farið úrskeiðis og hvernig við ætlum að líta til framtíðar. Mér finnst mikilvægt að menn gefi þeirri umræðu einhvern tíma svo sómi verði að fyrir kosningarnar 25. apríl næstkomandi.

Málin eru mörg og brýn. Í hádeginu í dag var lokið við það í allsherjarnefnd að taka út úr nefndinni mál er varðar greiðsluaðlögun fyrir heimilin og fjölskyldurnar, íbúðareigendur sem eru í miklum vandræðum. Það mál bíður nú 3. umr. og ég held að það sé eitt af þeim mjög svo brýnu málum sem fyrir okkur þingmönnum liggja. Ég vonast til þess að það mál og það úrræði muni nýtast fjölskyldum sem um síðustu áramót hefur ábyggilega mörgum hverjum brugðið mjög við að opna reikningana og eru nú að taka til í sínu heimilisbókhaldi. Þarna er stóri vandinn og um þetta höfum við þingmenn verið að hugsa.

Þetta mál sem ég nefndi er flutt sameiginlega af allsherjarnefnd. Málið varð til í meðförum allsherjarnefndar. Að því standa þingmenn allra flokka í mikilli samstöðu. Það er bara þannig þegar svona er að menn verða að koma sér saman um þau brýnu mál sem snúa að heimilunum í landinu.

En við erum hér í 2. umr. enn og aftur um stjórnarskrána. Það eru ýmis atriði sem mig langaði til að taka betur á eftir fyrri ræðu mína. Vegna orða hv. þm. Ástu Möller um stjórnlagaþingið og framsóknarmenn er dálítið áhugavert að lesa frumvarp Páls Zóphóníassonar frá 1948 þar sem hann kom fram með þá hugmynd að setja á stofn stjórnlagaþing. Það má alveg segja sem svo að rót þess máls sé að vissu leyti frá árinu 1941 þegar við Íslendingar vorum að reyna að átta okkur á hvernig við ættum að setja á fót íslenska stjórnarskrá. Um það var töluvert rætt á þinginu og menn höfðu ýmsar skoðanir á því. Horft var til þjóðfundarins frá 1851, hvernig valið hafði verið á hann og hvernig það allt fór fram og stjórnlagaþing er má kannski segja annað orð yfir þjóðfund.

Páll Zóphóníasson gerði grein fyrir því í sinni greinargerð og í ræðum á Alþingi að hann teldi að breytingar á stjórnarskránni ættu að fara fram með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu, með sérstöku stjórnlagaþingi. En einnig kemur fram hjá honum í greinargerðinni að það þurfi töluvert mikla umræðu í þjóðfélaginu áður en stjórnlagaþing gæti hafist handa. Tillagan var borin upp á Alþingi 1948 en samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir að ekki yrði kosið á stjórnlagaþingið fyrr en árið 1951 og jafnvel ekki fyrr en árið 1952 yrði málið lagt fyrir þjóðina.

Hvers vegna valdi Páll Zóphóníasson að hafa svona langan tíma til þess að íhuga málið? Það var fyrst og fremst vegna þess að að hans mati þurfti að eiga sér stað umræða í þjóðfélaginu um það hvað menn vildu fá fram í slíkum stjórnarskrárbreytingum. Og það getur verið að þetta sé einmitt mergurinn málsins. Við þurfum á því að halda, stofnanir þjóðfélagsins, fræðimenn á sviði stjórnskipunarréttar, ýmsir aðilar sem hafa ríka hagsmuni af einstökum ákvæðum í stjórnarskránni, að það hafi farið fram umræða í þjóðfélaginu og það hafi kannski kristallast betur hvað það er sem menn vilja sjá breytingar verða á.

Það sló mig mjög þegar ég var að kynna mér þetta mál og lesa gögn málsins, og ég greindi aðeins frá því við 1. umr., að það eru ákveðin vandkvæði fólgin í því að skrifa heila stjórnarskrá og bera hana í heilu lagi undir þjóðina. Hvað er það sem menn eru að taka afstöðu til í hverju einstöku tilviki, hvað það er sem hvílir mest á mönnum, herra forseti? Í umræðunni í kvöld höfum við kannski fengið örlitla nasasjón af því hversu ólík sjónarmið manna eru í þessu.

Í hugum sumra er gríðarlega mikilvægt að ákvæði um þjóðareign sé með ákveðnum hætti. Sumir vilja ekki sjá slík ákvæði í stjórnarskrá, aðrir vilja fara mildilegri leið og enn aðrir vilja ganga lengra. Ef við hugsum okkur að til yrði ný stjórnarskrá á stjórnlagaþingi og málið yrði lagt fyrir þjóðina, í því væri til að mynda ákvæði um þjóðareign, þar væri líka ákvæði um breytingu á þrískiptingunni, þar gætu líka verið ákvæði um að afnema íslensku þjóðkirkjuna, allt eru þetta atriði sem við höfum rætt nokkuð í samfélaginu en gjarnan með ómarkvissum hætti. Þegar slík stjórnarskrá er borin upp til samþykktar fyrir þjóðina og kynnt af hálfu þeirra sem stjórnlagaþingið sitja sem heildstætt plagg geta menn verið að taka afstöðu til stjórnarskrárinnar í heild sinni jafnvel út frá einu ákvæði, herra forseti. Það gæti haft svo afgerandi úrslitaáhrif á ákveðna hópa í samfélaginu að menn gætu, t.d. ef við tökum ákvæðið um þjóðkirkjuna, talið að það væri ástæða til að fjalla um stjórnarskrána í heilu lagi bara vegna þess atriðis. Í þessu efni verðum við að vera búin að gera okkur svolítið í hugarlund á Alþingi hvernig við sjáum svona breytingar verða. Hvað viljum við fá fram? Hvernig viljum síðan að málið sé rætt meðal þjóðarinnar?

Það er nefnilega svo í þeim löndum þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla er algengari en hér — og ég ætla að taka það fram að ég er hlynnt því að þjóðaratkvæðagreiðslum fjölgi hér á landi og hef verið þeirrar skoðunar um langa hríð — þá er það ekkert endilega svo að málin renni í gegnum þjóðina. Það er ekki endilega svo að það sé auðveldara að fá fram breytingar í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum. Þess vegna er mjög mikilvægt að undirbúningurinn sé þannig að menn átti sig á því hvernig með slíkar breytingar eigi að fara. Þetta er ein af röksemdunum með því að breytingar á stjórnarskránni séu gerðar rólega, að tekið sé eitt skref í einu í því.

Það var ágætisviðtal við Ragnhildi Helgadóttur, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, í skemmtilegum þáttum sem nú eru á Rás 1 á sunnudagsmorgnum þar sem Ævar Kjartansson og Ágúst Þór Árnason, í Háskólanum á Akureyri, eru að ræða sérstaklega þær breytingar sem eru fyrirliggjandi á stjórnarskránni og raunar umbreyttu þættinum sem fjallaði núna um lýðræðisskipulag í þá átt núna þegar þessar breytingar lágu fyrir. Þar hafa verið gestir m.a. eins og fram hefur komið í þessari umræðu hv. þm. Kristrún Heimisdóttir en jafnframt Ragnhildur Helgadóttir. Margt áhugavert kom fram í viðtalinu við hana og m.a. þetta eðli stjórnarskráa að vera svolítið til þess fallið að hægja á umræðunni. Hugsunin er sú að stjórnarskráin er dálítið íhaldssöm og menn fari frekar til baka í umræðunni, hún lætur menn aðeins bakka og velta fyrir sér hlutunum og slaka aðeins á.

Mér finnst mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa þetta í huga þegar við hugsum um þetta og jafnframt að við ættum að reyna að komast að samkomulagi um það hvaða þáttum í stjórnarskránni er nauðsynlegast að breyta, og ef af því yrði að sett verði á fót stjórnlagaþing, hvort sem það er löggjafarsamkunda eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir eða ráðgefandi með einhverjum hætti sem ég hef verið hrifnari af, yrði það unnið þannig að þær breytingar sem gera ætti á stjórnarskránni yrðu bornar undir þjóðina með skipulegum hætti.

Við höfum á undanförnum árum talað hér nokkuð um sjálfstæði þingsins, að auka það og styrkja þingið. Mér finnst ekkert óeðlilegt við stjórnarskrárbreytingar og ég ætla ekki að taka afstöðu til þess í þessu dæmi hvort þær eigi að fara fram á stjórnlagaþingi eða Alþingi, ég ætla einungis að nefna að þá væri ekkert óskynsamlegt að bera það undir þjóðina. Í fyrsta lagi: Hvernig getum við styrkt þingið? Hvaða ákvæði í stjórnarskránni þarf að styrkja? Hvað þurfum við að gera? Að þjóðin sé spurð um þessi atriði fyrst. Þetta er kannski það grundvallaratriði í stjórnarskránni sem margir lögfræðingar og margir fræðimenn á sviði lögfræði hafa rætt töluvert á undangengnum árum og hafa raunar gert um langa hríð.

Síðan kemur að þessu atriði um náttúruauðlindirnar og samspili við almenn lög og þær breytingar sem við höfum þegar gert á almennum lögum í þá átt að tryggja betur náttúruauðlindirnar sem sameign þjóðarinnar. Ég nefni í þessu sambandi t.d. frumvarp sem samþykkt var í fyrra, um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði þar sem fram kemur að ekki sé heimilt að selja auðlindir í jörðu eða vatnsafl. Það ákvæði var mjög merkilegt ákvæði í sjálfu sér og töluverð breyting sem þar kom fram. Raunar er það svo að sem hluti af því frumvarpi var að ákveða að setja á fót nefnd sem átti síðan að vinna áfram með það hvernig fara skyldi með þessar auðlindir í leiguframsali og slíku og umræðan um stjórnarskrána og umræðan um það, hæstv. forseti, hvernig menn höfðu hugsað þetta í hinum almennu lögum sem þar var um að tefla fylgist dálítið að.

Nú kom það fram á bloggsíðu hæstv. iðnaðarráðherra í kvöld að hann teldi að með þessum lögum sem samþykkt voru í fyrra sé fyrir það girt að þau ósköp gætu orðið sem kom fram hjá ágætum manni um helgina, að hægt væri að hirða af okkur allar auðlindir, og það er mjög nauðsynlegt að það komi fram. Ég held raunar að það hafi verið alveg fáránlegt af viðkomandi aðila að tala með þeim hætti og við eigum auðvitað að taka til varna þegar svo er.

Stjórnlagaþingið sem er það sem ég hafði hugsað mér að einbeita mér að í þessari stuttu ræðu og þær breytingar sem hafa orðið á því í meðförum nefndarinnar gefa mér tilefni til að halda að hægt sé að ná um það einhvers konar lendingu hvernig með það mál eigi að fara. Það er alveg klárt að hugmyndin um stjórnlagaþing hefur þroskast mjög í vetur frá því hún kom fram fyrst í janúar. Reyndar verð ég að segja að ég var að fletta því upp hverjir hefðu tekið þátt í umræðunni af hálfu framsóknarmanna og það kom mér dálítið á óvart að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem er mjög duglegur að taka þátt í umræðum hér, hefði ekki tekið þátt í umræðum um stjórnlagaþingið með beinum hætti þegar það var til umræðu sem frumvarp framsóknarmanna. Hann hefur vissulega tekið þátt í andsvörum en hann hefur ekki haldið ræður sérstaklega um stjórnlagaþingið og það vekur dálitla athygli með hliðsjón af því að þar fer varaformaður Framsóknarflokksins og mál sem framsóknarmönnum hefur að því er mér hefur sýnst hér í þingsölum fundist vera afar mikilvægt. Þetta er mál sem þeir leggja mikla áherslu á að skipti mjög miklu máli fyrir þá í komandi kosningabaráttu sem kemur mér í sjálfu sér töluvert á óvart vegna þess að ég held að þetta sé ekki kannski það mál sem er efst í hugum þeirra kjósenda sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson mun hitta á ferð sinni um Norðausturkjördæmi, með fullri virðingu fyrir öðrum þeim málum sem þar munu ábyggilega vera framarlega í hugum manna. En ég hef ekki trú á að þetta sé akkúrat það mál sem skiptir mestu máli fyrir þá í þeirri baráttu sem fram undan er.

Engu að síður þá er það svo að þingflokkur framsóknarmanna og framsóknarmenn hafa í vetur haft mikinn áhuga á að þetta mál fái framgang í þinginu. Málið hefur hins vegar tekið verulegum breytingum. Í fyrsta lagi er frumvarp framsóknarmanna töluvert ólíkt því frumvarpi sem síðar var lagt fram af hálfu ríkisstjórnarflokkanna eða þetta stjórnarskrárfrumvarp. Það fylgja með í fylgiskjali með frumvarpi til breytingar á stjórnarskipunarlögum drög að frumvarpi um stjórnlagaþing. Ég sakna þess mjög í þeim drögum að ekki skuli fylgja greinargerð með frumvarpinu. Ýmsar greinar þess þarfnast skýringa og ég býst við að það hafi kannski verið rætt eitthvað nánar í stjórnarskrárnefndinni hvað felst í einstökum þáttum frumvarpsins. En engu að síður finnst mér það skipta máli fyrir okkur þingmenn, sem erum að reyna að gera okkur grein fyrir málinu, að hafa betri tilfinningu fyrir því hvernig þetta stjórnlagaþing eigi að vinna. Mér finnst svolítið sérkennilegt hversu líkt það er Alþingi skipulagslega séð. Ég hefði haldið að við þær aðstæður sem nú eru væri reynandi að líta kannski í talsvert aðrar áttir en þá að hafa þetta svona eins og afrit af Alþingi, eins og hv. þm. Kristrún Heimisdóttir komst svo skemmtilega að orði í þætti í útvarpinu um daginn.

Síðasta breyting sem hefur orðið á stjórnlagaþinginu í meðförum nefndarinnar er að reyna að draga úr tímanum og leita leiða til að draga úr kostnaði við það vegna þess að fyrstu hugmyndir um stjórnlagaþingið voru gríðarlegar. Við þær ömurlegu efnahagsaðstæður sem hér eru hljómar stjórnlagaþing upp á 2 milljarða dálítið einkennilega í eyrum margra, sérstaklega þar sem við sitjum öll sem hér eru inni á stjórnlagaþingi, og mér finnst ansi langt gengið að koma með 2 milljarða króna stjórnlagaþing inn í þessa umræðu. En í síðustu útfærslunni, þriðju útfærslunni af stjórnlagaþingi er lagt til að þingið taki ekki til starfa fyrr en árið 2010 vegna þess að náðst hafi um það samkomulag í meiri hlutanum í nefndinni að hafa það með þeim hætti. Og reyndar síðan sú hugmynd að kjósa til stjórnlagaþings um leið og kosið verður til sveitarstjórna, sem ég er sannfærð um að muni valda verulegum vandræðum og ég á ekki von á því að sveitarstjórnarmenn muni taka vel í það. Það hefur komið fram hjá Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, að það væri varhugavert að gera þetta svona. Þetta skyggir náttúrlega verulega á sveitarstjórnarkosningarnar og það er bara svo eðlisólíkt að kjósa til stjórnlagaþings og til sveitarstjórna. Þar er um allt annars konar mál að ræða og ég get bara ekki ímyndað mér hvernig kosningabaráttan fer fram, hæstv. forseti, árið 2010 (Gripið fram í.) þegar verið er að kjósa sveitarstjórnarmenn úti um allt land og á sama tíma eru menn ríðandi um héruð til að gefa kost á sér til stjórnlagaþings. Ég veit ekki hvernig menn hafa hugsað sér að slíkt fari fram. Ég held að þetta hafi að vissu leyti verið nokkuð vanhugsuð hugmynd. En engu að síður gefa allar þessar breytingar og sú þróun sem er að verða núna á stjórnlagaþingshugmynd Framsóknarflokksins mér tilefni til að halda að það sé mjög mikil ástæða til þess að málið fari til nefndar (Forseti hringir.) núna í 2. umr. og reynt verði að (Forseti hringir.) leita leiða til að ná samkomulagi um málið. Það finnst mér skipta miklu máli, herra forseti.