136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

ræðutími í utandagskrárumræðu.

[10:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ef ég heyrði rétt áformar hæstv. forseti að hér verði utandagskrárumræða eftir hádegi um skýrslu fjárlaganefndar breska þingsins. Ég þakka fyrir að sú umræða fari fram en í þeirri skýrslu felast mikil tíðindi er varða gríðarlega hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Ég óskaði eftir því á laugardaginn þegar um þessa skýrslu var rætt að nokkuð ítarleg umræða færi fram um skýrsluna. Í ljósi efnis hennar og þeirra hagsmuna sem eru í húfi tel ég óásættanlegt að alþingismenn fái einungis tvær mínútur í ræðutíma til þess að fjalla um innihald skýrslunnar. Ég hvet því hæstv. forseta til að endurskoða ákvörðun sína og tryggja að umræða um þetta mikla hagsmunamál okkar Íslendinga verði lengri en ráðgert er.