136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – umhverfismál.

[10:37]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Ég hef í þrígang þurft að kveðja mér hljóðs og vekja athygli forseta á því að ekki var haldinn fundur í umhverfisnefnd. Hann var haldinn í gær og þakka ég fyrir það. Tekið var fyrir það mál sem meiri hluti nefndarmanna hafði viljað fá að fjalla um. Það var tekið út og þingskjölum var dreift í gær. Það mál er þingsályktunartillaga um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum sem flutt er af meiri hluta þingmanna. Ég vil fara þess á leit, herra forseti, að þetta mál verði sett á dagskrá þannig að þingheimur geti rætt það og eftir atvikum afgreitt það áður en þing lýkur störfum fyrir kosningar.

Ég ætla ekki að deila við forustu nefndarinnar, hv. formann og hv. varaformann, um hvers vegna það tafðist að boða til fundarins. En ég get hins vegar ekki leitt það hjá mér, fyrst ég er kominn upp, að ræða þetta mál enn einu sinni að segja að það er ekki í samræmi við þingsköp að fundur sé ekki boðaður í tæpa viku eða fimm daga frá því að meiri hluti nefndarinnar óskar eftir að fundur sé haldinn. Ég ætla að taka skýringar þeirra gildar en ég held að það sé afar varhugavert og varði virðingu þingsins, rétt þingmanna og þingræðið sjálft, ef sú verður venjan að ekki sé brugðist strax við þegar þriðjungur, að ég tali ekki um meiri hluti nefndar, óskar eftir því að fundur sé haldinn. Ef við förum þá leið held ég að þingið sé á villigötum hvað þetta varðar.