136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – umhverfismál.

[10:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er hreint og beint hryggilegt að sjá hvað hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur miklar áhyggjur af því á okkar tímum að ekki séu haldnir nógu margir fundir í umhverfisnefnd. Ég vil við þetta tækifæri óska honum til hamingju með að hafa náð að vera á fundi þeim sem ég var einmitt á í gær sem staðgengill, vegna þess að þar komu fram mjög merkar upplýsingar, m.a. frá fulltrúum úr æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar um skoðanir þeirra og afstöðu til þessa máls, þar sem þeir kváðu m.a. í kútinn sjálfan Kjartan Ólafsson sem er einn af rökföstustu og gáfuðustu snillingum á þinginu, hv. þingmaður.

Hv. þm. Árni M. Mathiesen taldi það málinu til tekna vissulega að á því væri meiri hluti þingmanna sem flutningsmenn. Það er auðvitað rétt að slík mál hljóta að hafa ákveðna sérstöðu á þinginu. Þess vegna spyr ég, forseti: Hvernig stendur á því að mál sem ég hef mikinn áhuga á að verði rætt í þingsölum, meira en tvær mínútur á mann, jafnvel þrjár mínútur á mann ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fengi sínu framgengt, er ekki komið á dagskrá, af því að á því er meiri hluti þingmanna? Þar á ég við það mál sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem er ekki í salnum og var ekki í gær heldur, flutti ásamt rúmlega þremur tugum þingmanna um upphaf hvalveiða. Það mál hefur ekki komist á dagskrá þingsins og síðast þegar um það var spurt sagði forseti Alþingis að ekki hefði verið eftir leitað af hálfu flutningsmanns eða flutningsmanna. Hvernig stendur á því að ekki er eftir því leitað?

Ég tel að úr því að mál sem meiri hluti þingmanna flytur njóta sérstöðu hljóti menn líka að líta svo á að jafnræði sé á milli þeirra, og að þeir sem vilja ræða þetta mál um hvalveiðar sem meiri hluti (Forseti hringir.) þingmanna hefur flutt eigi að eiga sama rétt og þeir sem vilja ræða vitleysisþingsályktunartillögu meiri hluta þingmanna hér inni um (Forseti hringir.) frekari mengun og samninga sem ekki standast. (Gripið fram í.)