136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- umhverfismál.

[10:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þingsályktunartillaga um umhverfismál, loftslagsmál, hefur náð fram að ganga í nefndinni og við getum tekið þetta mál til umfjöllunar í þingsal. Þetta er mikilvægt mál og mikilvægir íslenskir hagsmunir sem hér eru undir. Það er misskilningur að hér sé einhver krafa um það að fá að menga meira, að við séum að hlaupast undan merkjum í alþjóðlegu samstarfi. Að baki þeirri hugsun sem kemur fram í þingsályktunartillögunni er einmitt ábyrg stefna íslenskra stjórnvalda sem vann sér fylgi á alþjóðavettvangi þegar Kyoto-samþykktin var undirrituð vegna þess að þetta er ekki bara gott fyrir Ísland, heldur gott fyrir heiminn allan og það er sú aðferðafræði sem þar er lagt upp með.

Hvað varðar umræðuna um hvalveiðiályktunina, þingsályktunartillögu um hvalveiðar, er rétt að hafa í huga að efni þeirrar tillögu er nú þegar stefna ríkisstjórnarinnar og sá er munurinn á milli hennar og loftslagsmálanna, sem við ræðum hér, en sú tillaga gengur þvert á stjórnarstefnuna sem nú er uppi, þ.e. meiri hluti þingmanna vill að ríkisstjórnin beiti sér með öðrum hætti. Hér í þinginu er minnihlutastjórn og vilji meiri hluta þingsins liggur fyrir með þessari þingsályktunartillögu. Þess vegna skiptir máli að hún nái fram að ganga.

Ég verð að taka undir með mörgum öðrum þingmönnum sem hér hafa tjáð sig að mér þykja ummælin sem hv. þm. Mörður Árnason lét falla áðan ekki smekkleg en ég held að það sé svo í þessum þingsal að menn kippa sér ekki upp við slík ummæli hv. þingmanns. Hann hefur vakið athygli í þingsölum fyrir ummæli af þessum toga og ég tel ástæðulaust að fyrtast sérstaklega við eða kalla eftir einhverjum viðbrögðum af hálfu þingmannsins um þau. Aðalatriðið er að forseti beiti sér fyrir því að taka sem fyrst til umræðu í þinginu ályktun um loftslagsmálin. (Forseti hringir.) Þetta eru mikilvægir íslenskir hagsmunir, hluti af atvinnuuppbyggingunni í landinu og hluti af möguleikum okkar Íslendinga til að vinna okkur út úr þeim vanda sem nú er fram undan.