136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í umræðum um stjórnarskipunarlög sem eru númer 2 á dagskrá þess fundar sem hér liggur fyrir lagði hv. þm. og formaður Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í því skyni að greiða fyrir sáttum varðandi meðferð þess máls. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson formaður sérnefndar um stjórnarskrá tók vel í þá sáttaumleitun sem fram kom í máli hv. þingmanns og ég bind vonir við að sættir náist.

Á dagskrá fundarins kemur fram að áttunda mál á dagskránni er greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir heimilin í landinu og varðar greiðslubyrði heimilanna og greiðsluvandamál þeirra og úrræði til þess að bregðast við því.

Ég, sem einn af flutningsmönnum þessa frumvarps sem nefndarmaður í allsherjarnefnd, óska eftir því vegna þeirra hagsmuna sem í húfi eru fyrir heimilin í landinu í tengslum við þetta mál að forseti hlutist til um að það mál verði sett fyrst á dagskrá. Það eru flutningsmenn að þessu máli úr öllum (Forseti hringir.) stjórnmálaflokkum á Alþingi og ég vonast til þess að hæstv. forseti taki þessari beiðni minni vel svo ég þurfi ekki að leggja fram dagskrártillögu.