136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:27]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Þar sem ég er næstur á mælendaskrá til þess að ræða um stjórnarskrármálið hafði ég hlakkað til þess að koma í fyrsta skipti í þær umræður í björtu en hingað til hafa þetta verið alinlangar næturumræður. Mér þykir því miður ef þær umræður frestast en get vel skilið áhuga félaga minna sem hér hafa talað um að taka önnur mál á dagskrá sem mjög brýnt er að afgreiða. Ég mun því styðja þá dagskrártillögu sem hér liggur fyrir, sem ég tel að samkvæmt almennum fundarsköpum eigi að bera þá þegar undir atkvæði. Það mun þó eitthvað vera á reiki hvernig það er gert.

Við hv. þm. Mörð Árnason vil ég segja að það er ekki hægt að nota orðbragð eins og að tala um ósvífinn minni hluta. Hvað er verið að tala um? Hér er eingöngu verið að neyta lýðræðislegs réttar og það er spurningin um hvort meiri hluti Alþingis styður þá dagskrártillögu sem hér er borin fram. Er það einhver ósvífinn minni hluti? Nei, það er spurning um hvort það er meiri hluti fyrir því á Alþingi að styðja dagskrártillöguna. Það er hið einfalda í málinu. (Gripið fram í.)