136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar liggja ýmis brýn mál. Það eru mál sem eru ekki aðeins sanngirnismál, mörg hver, réttlætismál, heldur eru það mál sem full samstaða ríkir um, mál sem komin eru frá nefndum og þurfa að fá afgreiðslu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú í nokkuð marga sólarhringa, í 40 klukkustundir samtals af þingtímanum, komið í veg fyrir að gengið verði þannig frá stjórnarskipunarlögum að hægt verði að greiða um þau atkvæði og koma til nefndar. Þessi síðasta uppákoma núna er viðbót við líklega sjö klukkutíma þvarg um fundarstjórn forseta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir, 300 ræður um fundarstjórn forseta. Hversu lágt geta menn lagst?