136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. 8. mál á dagskrá er eitt það merkasta sem liggur fyrir í þinginu núna, mál sem allsherjarnefnd flytur í heild sinni um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Það er mál sem breið samstaða er um á þingi og rætur sínar að rekja til vinnu sem fór fram í allsherjarnefnd í vetur.

Að mínu áliti er afar brýnt, frú forseti, að málið komist á dagskrá hið allra fyrsta og ég held þess vegna að ástæða sé til þess að taka undir það sem kom fram hjá hæstv. forseta áðan, að kalla verði á fund þingflokksformanna þar sem lagt verði til að slíta þeim fundi sem hér stendur og boða til nýs fundar þar sem þetta mál verður tekið á dagskrá og afgreitt fljótt og vel.

Hér er um að ræða mál sem skiptir öllu máli fyrir fjölskyldurnar í landinu og það er það sem við eigum að vera að ræða núna. Það eru einmitt svona mál sem við eigum að afgreiða. Það liggur alveg fyrir að samstaðan um málið er breið, frú forseti, og ég brýni forseta til þess að taka það til athugunar þannig að við getum skoðað málið hratt og vel í dag. (Forseti hringir.)