136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:38]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég flutti þrjár breytingartillögur við frumvarpið í gær og vil nú í annarri ræðu minni, eða síðari eftir atvikum, fara yfir efnisatriðin í þeim breytingartillögum. Þá gefst líka tækifæri til að fara yfir þau atriði frumvarpsins sem ég hafði ekki komið nægjanlega að í fyrri ræðu minni og ég get farið betur yfir þau sjónarmið sem ég vil leggja áherslu á í frumvarpinu.

Fyrsta breytingartillagan lýtur að 1. gr. frumvarpsins. Þar legg ég til að greinin orðist á annan veg en gert er í frumvarpinu og líka í breytingartillögu meiri hlutans. Ég legg til að greinin verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Öll verðmæti í sjó, á sjávarbotni og undir honum innan efnahagslögsögu eru þjóðareign, svo og þjóðlendur, námur í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðhiti neðan við 100 metra dýpi. Aðeins er heimilt að ráðstafa verðmætum skv. 1. mgr. til afnota tímabundið og gegn gjaldi samkvæmt nánari ákvörðun í lögum. Sala þeirra eða önnur ráðstöfun er óheimil. Eignarrétti á íslenskum náttúruauðæfum, landi og landgrunni skal að öðru leyti skipað með lögum. Tryggja ber landsmönnum öllum rétt til umgengni og útivistar í landinu.“

Þessi tillaga mín er að meginstofni til tekin upp úr frumvarpi til breytingar á stjórnarskránni sem flutt var á 121. og 122. löggjafarþingi af þingmönnum Alþýðubandalagsins. 1. flutningsmaður var Ragnar Arnalds og ég var einn af meðflutningsmönnum þá. Þá var byrjað að ræða ýmsar hugmyndir sem síðar hafa hlotið meiri stuðning eftir því sem árin hafa liðið. Í því frumvarpi voru nýmæli á þeim tíma, sem mér finnst að að stofni til eigi enn erindi inn í stjórnarskrána og legg ég því til að 1. gr. í frumvarpinu sem á að kveða á um náttúruauðlindir og þjóðareign á þeim verði eins og þar segir. Ástæðan fyrir því er sú að frumvarpið sem flutningsmennirnir fjórir flytja er með þeim ágalla að það er ekki gert ráð fyrir því og ekki kveðið upp úr með það í stjórnarskránni, ef þeirra tillaga nær fram að ganga, það er ekki sagt með skýrum hætti hvaða auðlindir verða þjóðareign. Þar segir bara að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign. Síðar verður það ákveðið í lögum hverju sinni hvaða auðlindir verða þjóðareign. Ég vil vísa til þess sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 26, þar sem þetta er rakið og þar segir, með leyfi forseta:

„Vegna þess að aðstæður og viðhorf geta breyst í tímans rás er ekki gert ráð fyrir að náttúruauðlindir í þjóðareign verði skilgreindar í sjálfri stjórnarskránni, heldur verði það gert í almennum lögum.“

Þetta er náttúrlega ótrúlegur fingurbrjótur, að ætla sér að setja í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum en ákveða með þeim hætti að það sé ekki ákveðið í stjórnarskránni heldur bara með almennum lögum. Menn hljóta að átta sig á því hvað þeir eru að gera með þessu háttalagi. Þetta felur í sér að Alþingi getur á hverjum tíma með einföldum lögum ákveðið að fella tilteknar auðlindir undir ákvæði stjórnarskrárinnar og skilgreina þær sem þjóðareign og Alþingi getur líka með einföldum lögum ákveðið að fella brott tilteknar auðlindir, undan ákvæði stjórnarskrárinnar sem þjóðareign og gert þær að eign sem hægt er að selja. Þannig segir t.d. í þessari greinargerð, með leyfi forseta:

„Mikilvægt framlag hins nýja stjórnarskrárákvæðis er að þegar auðlindir falla á annað borð undir hugtakið þjóðareign verður tryggt að þeim verði ekki afsalað varanlega til einstaklinga eða lögaðila.“

En það er bara meðan viðkomandi auðlind fellur undir ákvæði stjórnarskrárinnar. Það sem kannski undirstrikar að sú tillaga sem um er að ræða í frumvarpinu kveður ekki upp úr um það hvað sé þjóðareign og hvað ekki þá segir í greinargerðinni með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með því að bæta ákvæði í stjórnarskrá sem lýsir yfir þjóðareign allra auðlinda sem ekki eru háðar einkaeignarrétti yrði hægt að fella undir hugtakið nytjastofna á Íslandsmiðum.“

Með öðrum orðum, það er ekki kveðið upp úr með það í frumvarpinu að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu þjóðareign. (Gripið fram í.) Það stendur bara upp úr og það er ekki gert. Það stendur að vísu í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en það er hægt að breyta þeirri grein hvenær sem er og þar með er hægt að selja þá auðlind hverjum sem heimilt verður að selja með þeim lögum.

Þetta er því hálfgert platákvæði í frumvarpinu sem ríkisstjórnarflokkarnir standa að og Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn. Það er dálítið verið að kasta ryki í augu fólks með því að flytja þetta og segja að þetta sé ákvæði um þjóðareign, því það er það ekki. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að flytja þá breytingartillögu sem ég flyt þar sem er skilgreint mjög skýrt hvaða auðlindir það eru sem eru þjóðareign. Það er skilgreint í stjórnarskránni og þar með getur Alþingi ekki breytt því með einföldum lögum.

Það er nefnilega tortryggilegt þegar menn ná samkomulagi um ákvæði sem kemur ekki við neina hagsmunaaðila, eins og kvótaeigendurna í sjávarútvegskerfinu. Það varð kannski tilefnið til þess að ég fór að hugsa hvað hér væri á seyði, ef hér er verið að flytja ákvæði sem þessir aðilar kippa sér ekki upp við. Þá var þetta skýringin, hún liggur í þessu, að það er ekki verið að gera neitt sem ógnar hagsmunum þeirra. Það er mikill galli á málinu og þess vegna nauðsynlegt að leggja til að úr honum verði bætt og því reynir á það í þinginu hvort þingmenn vilja setja inn í stjórnarskrána skýra upptalningu á þeim auðlindum sem eiga að vera þjóðareign eða hvort menn vilja blekkja þjóðina og framselja Alþingi það vald framvegis með lögum, hvaða náttúruauðlind verður þjóðareign og vald til að taka það úr þjóðareign hvenær sem þurfa þykir eða henta þykir.

Í öðru lagi er ég með tillögu um breytingu á 3. gr. frumvarpsins. Hún fjallar um möguleika almennings á að kalla til sín löggjöf og láta kjósa um hana, gildi hennar. Að mínu viti vantar inn í frumvarpið ákvæði um heimild tiltekins hlutfalls þingmanna til að vísa löggjöf til þjóðarinnar eins og lagt var til í frumvarpsdrögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði skömmu eftir að ríkisstjórnin komst til valda 1. febrúar. Þar var lagt til að þriðjungur alþingismanna gæti ákveðið að samþykkt lagafrumvarp yrði borið undir atkvæði allra kosningabærra manna til samþykktar eða synjunar. Mér finnst að þá leið vanti og legg til í breytingartillögu nr. 2 að úr því sé bætt með eftirfarandi ákvæði, með leyfi forseta:

„Þriðjungur alþingismanna getur ákveðið að bera samþykkt lagafrumvarp undir atkvæði allra kosningabærra manna til samþykktar eða synjunar, samanber þó 2. mgr. Slík ákvörðun skal tilkynnt með bréfi til forseta Alþingis áður en þrír dagar eru liðnir. Þjóðaratkvæðagreiðslan fer þá fram innan þriggja mánaða. Verði frumvarpið þá samþykkt skal forseti Íslands staðfesta það sem lög.“

Ég veit ekki af hverju þessi tillaga hlaut ekki náð fyrir augum flutningsmannanna fjögurra fyrst hún var komin fram í starfshópnum sem undirbjó frumvarpið. Það kann að vera að skýringar á því hafi komið fram í umræðunni en það hefur þá farið fram hjá mér og a.m.k. sé ég ekki rök til þess að fella þennan möguleika úr frumvarpsdrögunum.

Þetta hefur komið til tals hér í þingsölum í gegnum árin, ýmsar breytingar á stjórnarskránni sem eiga að opna möguleika á því að þjóðin geti greitt atkvæði um tiltekin mál eða tiltekna löggjöf og oft verið nefndur þessi möguleiki að ekki bara almenningur geti kallað til sín mál heldur líka hitt að þingmenn geti vísað máli. Þetta virkar sem hemill að nokkru leyti á meiri hluta Alþingis hverju sinni. Það kann að vera knúin í gegnum þingið með mjög naumum meiri hluta löggjöf sem er mjög umdeild og þá er möguleiki á því ef þriðjungur þingmanna er um það sammála að minni hlutinn geti ákveðið að bera löggjöfina undir alla þjóðina og það kann að vera skynsamlegt oft á tíðum. Ég held að þetta verði til þess að draga úr líkunum á því að menn knýi í gegnum Alþingi með knöppum meiri hluta mjög umdeilt mál og leiti frekar samkomulags um það þegar menn vita að hægt er að beita því úrræði að vísa málinu í almenna atkvæðagreiðslu.

Ég held að þetta geti verið skynsamleg leið og stuðli frekar að meira samráði innan þingsins og aukinni einingu um afgreiðslu mála. Nú, ef það tekst ekki þá væri það líka skynsamlegt í umdeildum málum að þjóðin hafi síðasta orðið um gildi þeirra. Ég held að þetta sé afar skynsamlegt lagaákvæði eða stjórnarskrárákvæði og það á sér fyrirmyndir í erlendum stjórnarskrám, m.a. á Norðurlöndum og því ætti ekki að vera neinn hörgull á því að sækja sér rökstuðning fyrir þessari tillögu til annarra þjóðþinga.

Í þriðja lagi er ég með tillögu um stjórnlagaþingið. Ég hef verulegar athugasemdir við stjórnlagaþingið eins og það er lagt fram í frumvarpinu og reyndar ekkert síður eins og það lítur núna út eftir breytingartillögu meiri hluta sérnefndarinnar.

Ég vil fyrst segja að mér finnst að það þurfi að skýra betur til hvers er ætlast af stjórnlagaþingi. Stjórnlagaþing er í rauninni ekkert annað en vettvangur eins og Alþingi. Það eru ef til vill ekki sömu mennirnir á þeim vettvangi en þetta er sams konar vettvangur, þjóðkjörinn vettvangur. Alþingi er þjóðkjörinn vettvangur sem m.a. hefur það hlutverk að hafa frumkvæði að því að gera breytingar á stjórnarskránni og samþykkja þær miðað við kerfið eins og það er núna. Ef menn telja að Alþingi sé ekki bært til þess að fjalla um stjórnarskrána eða breytingar á henni þá verða menn að útskýra hvers vegna stjórnlagaþing er til þess bært. Hvað gerir það að verkum að alþingismaður er ekki hæfur eða vanhæfur til verka en stjórnlagaþingmaður er það? Rökin fyrir því hafa verið mjög losaraleg og það þarf að leggja fram miklu betri rök til þess að sannfæra mig um að fara eigi þessa leið.

Menn hafa sagt sem svo, þingmenn geta ekki afgreitt eða tekið mál sem lúta að þeirra eigin stöðu, þ.e. stöðu Alþingis. Gott og vel, ef menn segja það, þá verður líka að gera ráð fyrir því að Alþingi fjalli ekki framvegis um þau mál, ekki bara núna þegar stjórnlagaþingið á að starfa heldur framvegis. Menn eru þá að segja að alþingismenn geti ekki fengist við þessi mál. Það er dálítið mikið sagt og það kemur reyndar ekki fram í áliti þeirra sem flytja frumvarpið að þeir ætlist til þess að stjórnarskrárbreytingar séu teknar frá Alþingi til frambúðar. Þvert á móti eru þeir með tillögu sem gerir ráð fyrir því að Alþingi fari með þessi mál og geri framvegis breytingar á stjórnarskránni og geri þar með breytingar á öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar, hvort sem þær lúta að mörkum Alþingis, stöðu alþingismanna eða öðru. Flutningsmennirnir lýsa því þar með yfir í frumvarpinu að þeir telja þingmenn hæfa framvegis til þess að fjalla um þessi mál. Hvernig geta þeir verið það, hæfir til lengri tíma en vanhæfir til skemmri tíma? Það finnst mér þarfnast skýringar og rökstuðningur fyrir því þarf að koma fram. Ég hef ekki séð hann.

Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að alþingismenn séu vanhæfir til lengri tíma til að fjalla um þessi mál, þá er niðurstaðan sú að leggja niður Alþingi. Þá er það bara niðurstaðan. (Gripið fram í.) Það er engin önnur niðurstaða sem kemur til greina. (Gripið fram í.) Þannig að ég segi, virðulegi forseti, að þó að ég hafi að sumu leyti samúð með því sjónarmiði að það þurfi á einhverjum stundum að kalla saman fólk til að semja stjórnarskrá — það er svo aftur annað mál hvort það þurfi að semja nýja stjórnarskrá — þá ganga röksemdir flutningsmanna ekki upp því þeir segja bæði og, hvorki né, og það er ekki hægt. Ég get ekki fallist á það, hafandi verið alþingismaður í 18 ár, að ég hafi verið og sé vanhæfur til að fjalla um þessi mál. Ég bara neita að samþykkja það, virðulegi forseti, og held því fram að ég sé algerlega hæfur til þess og geti verið það.

Ég vil líka benda á að stjórnlagaþingsfulltrúar búa líka við aðstæður sem geta gert þá vanhæfa með sama hætti. Það er ekkert sem bannar það að stjórnlagaþingsfulltrúi muni síðan að loknu stjórnlagaþingi bjóða sig fram til Alþingis. Hvað kemur þá í veg fyrir að stjórnlagaþingsfulltrúi vinni á stjórnlagaþingi til að búa í haginn fyrir persónulega hagsmuni sína? Það ekkert sem kemur í veg fyrir það. Menn verða þá að setja inn í stjórnlagaþingið ákvæði sem bannar þingfulltrúum að bjóða sig fram til Alþingis síðar, til þess að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra eða hagsmunagæslu í störfum viðkomandi á stjórnlagaþingi sem ég held að menn sjái að gangi heldur ekki.

Ætli menn og telji menn ástæðu til þess að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni þá á Alþingi að gera það. Þá er það hin spurningin sem ég vil bera fram og fá betri svör við en fram hafa komið. Hvers vegna þarf að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni? Ég hef ekki fengið nein svör við því. Ég kalla eftir því að menn beri fram þann rökstuðning sem liggur á bak við það sjónarmið að það þurfi að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Hvað er það í stjórnarskránni sem leiddi það af sér að bankarnir féllu? Eða hvað er það sem er tilefnið fyrir því að menn telja að það þurfi að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni?

Mér finnst þetta vera mjög vanhugsað ákvæði. Ég bendi líka á að það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, kannski helstu rökin gegn því, en í greinargerðinni segir beinlínis, á bls. 25, að þessi tillaga um stjórnlagaþing sé nýmæli sem eigi sér enga fyrirmynd annars staðar þó að menn hafi sums staðar lagt af stað með stjórnlagaþing í öðrum löndum þá hafi menn hvergi í Evrópu a.m.k. farið þessa leið. Hvers vegna fara menn þá þessa leið?

Svo kemur líka fram að þar sem menn fara í stjórnlagaþing þá er um að ræða sambandsþing, sambandslýðveldi, þar sem þjóðkjörnir þingmenn og kjörnir fulltrúar einstakra fylkja eða ríkja í viðkomandi landi hittast. Hér er ekkert sambandsríki og tillagan sem hér er lögð til gerir ráð fyrir að landsbyggðin verði þurrkuð út, bara þurrkuð út. Landsbyggðin á ekki möguleika á að fá kjörinn fulltrúa samkvæmt þeim tillögum sem meiri hlutinn leggur fram hér. Meira að segja er gengið svo langt að gera nánast ráð fyrir því að landsbyggðin sé ekki með í þessum hugmyndum. Svo bíta menn höfuðið af skömminni með breytingartillögunni um stjórnlagaþing með því að setja inn í stjórnarskrá að það megi með lögum ákveða að niðurstaða kosninga á stjórnlagaþingi sé ógild, að það sé eitthvert ráð vísra manna sem geti bara ógilt það sem kjósendur vilja og raðað upp á annan veg. Til dæmis segir að það eigi að tryggja tiltekið jafnræði kynjanna. Nú ef kjósendur vilja hafa 30 konur og 11 karla þá ætlar hv. þm. Atli Gíslason og einhverjir fleiri að henda út einhverjum konum og taka inn einhverja karla og leiðrétta það sem kjósendur ákveða. Hvert eru menn komnir, virðulegi forseti, þegar menn telja sig hafa vald til þess að hafa vit fyrir almenningi, vit (Forseti hringir.) fyrir þjóðinni þegar hún kýs og sett upp í lög ákvæði sem leiðrétta það (Forseti hringir.) sem þjóðin gerir rangt, að þeirra mati?