136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:01]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurninguna er svarið: Já. Ég tel að menn hafi verið að flýta sér mjög mikið að bera fram tillögur sem kannski lá ekki alveg fyrir í upphafi hverjar yrðu en menn hefðu kannski ákveðið að bera fram tillögu um stjórnlagaþing. Ég held að það hafi borið þannig að að það hafi fyrst verið ákveðið og síðan hafi hitt bæst við. Það er greinilegt af aðdraganda málsins, umfjöllun og áliti umsagnaraðila að það vantar mikið á að tillögugerðina hafi borið að með þeim hætti sem vera ber þegar stjórnarskráin á í hlut. Ég tek alveg undir það sjónarmið og þá gagnrýni.

Varðandi synjunarvald forseta Íslands er alveg rétt að komi þetta hvort tveggja inn í stjórnarskrá, að almenningur geti kallað til sín mál og að minni hluti þingmanna geti vísað máli til þjóðar, dregur það úr þörfinni á því að forseti Íslands hafi möguleika á að vísa máli til þjóðarinnar eins og hann hefur í raun og veru óbeint í gegnum það að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Hins vegar er ég ekki viss um að það vald forseta þurfi endilega að afnema þrátt fyrir að báðar þessar tillögur nái fram að ganga. Hann er sjálfur þjóðkjörinn og hefur, má segja, umboð til að vega og meta hvort hann vísi máli upp á eigin spýtur til þjóðarinnar. Ég býst við að hann mundi ekki komast oft að niðurstöðu um að gera það því að í þeim tilvikum sem um mjög umdeild mál væri að ræða væru annaðhvort þingmenn eða kjósendur búnir að taka ákvörðun um að kalla málið til sín. (Forseti hringir.)