136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu og alveg sérstaklega þá umfjöllun hans um að við erum hérna á stjórnlagaþingi og við erum kosin af þjóðinni í einhverjum skilningi, reyndar með listum og flokkum. Það sem hann sagði um stjórnlagaþing hef ég svo sem bent á og hann leggur hreinlega til að sú grein verði alveg felld niður.

Ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé rétt, eins og ég ræddi um í nótt, að þingið sinni stjórnlagastörfum sínum allt að því í hjáverkum. Menn starfa í nefndum og leysa dagleg vandamál þjóðfélagsins með lagasetningu og öðru slíku og þar af leiðandi verður stjórnarskipunarstarfið alltaf aukastarf. Eru ekki tilefni og ástæður til að hafa einhvers konar stjórnlagaþing sem sinnti þessu að fullu og gerði ekkert annað og gæti þar af leiðandi unnið þetta miklu hraðar og kannski meira í samfellu þannig að það sé heildarsýn yfir nýja stjórnarskrá en að það sé ráðgefandi? Er það ekki lausnin á þeim vanda sem hann nefndi um að tveir aðilar séu að breyta stjórnarskránni, jafnvel samtímis, og geti lent í slag hvor við annan. Það er ekki víst að meiri hluti Alþingis sé sáttur við hvernig tókst til með kjörið til stjórnlagaþingsins og óttast kannski að stjórnlagaþingið ætli að afnema Alþingi. Þá getur Alþingi sett inn breytingu um að afnema stjórnlagaþingið. Það er spurning hvort það að hafa það ráðgefandi mundi ekki leysa þann vanda og líka þann vanda sem hv. Alþingi stendur nú frammi fyrir með þessum miklu umræðum og þessum miklu deilum.