136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:18]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægður með það tækifæri að fá í fyrsta skipti að fjalla um þetta mál í dagsbirtu en mér hefur fundist sá bragur sem hefur verið á umræðunni, þannig að það er meira og minna talað út í nóttina, vera það sem ég vil kalla óvirðingu við þjóðina, þingið og stjórnarskrána. Ég hefði kosið að þetta væri með öðrum hætti, betri en hefur verið. En það er að sjálfsögðu meiri hlutinn sem ræður því með hvaða hætti hann heldur á þessu máli.

Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir góða og málefnalega ræðu sem hann flutti áðan og andsvör þar sem hv. þingmaður velti upp sjónarmiðum og kom með ákveðnar tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem eru góðra gjalda verðar og þarfnast umræðu. Þau sjónarmið og þau atriði sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi sýna betur en margt annað hversu ófullburða sú umræða er um stjórnarskrána sem hér fer fram vegna þess að það er ákveðin nefnd úti í bæ sem vinnur ákveðið frumvarp sem ákveðinn hluti þingmanna síðan ákveður að flytja, þ.e. formenn nokkurra stjórnmálaflokka. Það er satt að segja ekki eðlilegt að fara þannig að og láta enga umræðu fara fram fyrir fram innan Alþingis um hvaða atriði það geti verið sem alþingismönnum þykir brýnt að verði gerðar breytingar á. Það er sem sagt með þessum hætti undirstrikað af hálfu þeirra sem flytja það frumvarp til breytingar á stjórnarskipunarlögum sem hér liggur fyrir að valdið eigi að koma að ofan og annars staðar frá en Alþingi. Þetta finnst mér hin mesta fásinna og andstætt því sem verið er að tala um og hefur verið krafan í þjóðfélaginu, um að auka völd og virðingu Alþingis. Það hefur verið gagnrýnt að Alþingi skyldi ekki eftir efnahagshrunið hafa gripið til ákveðinna ráðstafana og þeir sem hér hafa talað og fjallað um kröfur fólksins misskilja það að krafa fólksins hefur einmitt verið sú að Alþingi gæti gripið mun virkar inn í en nú er hægt að gera, þ.e. að frumkvæðisréttur Alþingis er ekki fyrir hendi og spurningin um það að Alþingi geti haft ákveðinn frumkvæðisrétt ætti þá að vera fyrsta atriðið þegar komið er að stjórnarskrárbreytingum frekar en það annað sem hér ræðir um.

Alþingi hefur lagasetningarvald, fjárlagavald og vald til stjórnarskrárbreytinga. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn á það hversu hætt sé við að hér skapist algjör stjórnskipuleg ringulreið ef 4. gr. frumvarpsins yrði að lögum (Gripið fram í.) óbreytt, þ.e. með það stjórnlagaþing sem hér er um að ræða. Satt best að segja finnst mér þetta hrein fásinna og mér finnst það alveg með ólíkindum að fólki skuli detta það í hug að ætla að kjósa 63 þingmenn á Alþingi til þess að fjalla um meðal annars. breytingar á stjórnarskipunarlögum og velja síðan 41 þingmann á sérstakt stjórnlagaþing til þess að fjalla um það sama. Margir hafa kallað eftir því að alþingismönnum yrði fækkað en ekki fjölgað eins og hér er verið að gera tillögu um með því að hafa sérstakt stjórnlagaþing til að vinna að því sama.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti sérstaklega á að þeir sem tali fyrir stjórnlagaþingi þurfi að skýra betur til hvers er ætlast og það er akkúrat ákveðinn mergur málsins sem í því felst. Það hafa ekki komið fram haldbærar skýringar á því af hverju boða eigi til eða kjósa eigi til sérstaks stjórnlagaþings. Síðan eru þær hugleiðingar sem komu fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um þann núning sem hætt er við að verði á milli Alþingis og stjórnlagaþings atriði sem ég hef hér í mínum ræðum um þetta mál vakið ítrekaða athygli á.

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram að hér væri málþóf um stjórnarskrána. Ég verð að viðurkenna að ég á mjög margt eftir ósagt um það frumvarp sem hér ræðir um en því fer fjarri að ég sé í málþófi heldur er ég að fjalla um það sem mér finnst máli skipta hvað varðar stjórnarskipunarlög og reglur í íslensku samfélagi. Þær umræður hefðu, þ.e. ef um eðlilegt ástand hefði verið að ræða, átt að fara fram annars staðar og áður en þegar komið var að lokum þessa þings. Það er satt að segja alveg með ólíkindum hvernig staðið er að þessu máli. Frumumræðan um málið — ég býð velkominn í þingsal hv. þm. Grétar Mar Jónsson, hetju hafsins, sem hér hefur ítrekað sagt að hann sjái ekkert athugavert við að þingið starfi fram í nóttina og að hetjur hafsins séu vanar því. En hv. þingmaður hefur nú alltaf verið farinn heim fyrir klukkan sjö á kvöldin þrátt fyrir það að hann telji ekki eftir sér að vaka fram eftir.

Það er nú einu sinni þannig að það skiptir máli að eðlileg umræða fari fram um þetta mál og mér finnst miður að þeir sem sitja í sérnefnd um stjórnarskrármálin, þ.e. fulltrúar meiri hlutans, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hv. þm. Ellert B. Schram, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og hv. þm. Atli Gíslason skuli ekki hafa blandað sér með málefnalegum hætti í umræðuna til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum og koma til andsvara við þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram, sérstaklega af því, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti athygli á réttilega, að þeir sem vilja stjórnlagaþing þurfa að skýra það til hvers er ætlast.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég get ekki séð annað en að það að ætla að hafa þann hátt á sem gert er ráð fyrir í 4. gr. frumvarpsins mundi leiða til algjörrar stjórnskipulegrar ringulreiðar. Ég get ekki að því gert að ég átta mig ekki á því hvaða vitrænu glóru flutningsmenn þessa frumvarps hafa séð í því að leggja fram frumvarp eða tillögu með þessum hætti. Það er alveg ljóst að með því er verið að grafa undan völdum og virðingu Alþingis. Ætlast flutningsmenn til þess? Er það það sem þeir vilja? Það er ekki verið að taka á því mikilvæga, þ.e. að frumkvæðisrétturinn sé hjá Alþingi.

Við sjálfstæðismenn höfum bent á það ítrekað við þessar umræður og ítrekað bent á það við umræður um fundarstjórn forseta að mjög váleg tíðindi eru að gerast í samfélaginu. Núna fellur gjaldmiðillinn. Það er ljóst að gjaldeyrishöftin eru ekki að virka sem skyldi. Það er ljóst að erfiðleikar eru hjá heimilum og fyrirtækjum. En um það gefst ekki kostur að fjalla vegna ofríkis (Gripið fram í.) ríkisstjórnarinnar og fylgifiska ríkisstjórnarinnar en hv. þm. Grétar Mar Jónsson hlýtur að flokkast undir þá miðað við það hvernig hann stendur að málum þessa dagana. Vegna þess hvernig staðið er að málum af hálfu þessa meiri hluta er komið í veg fyrir að brýn mál fáist rædd og afgreidd þannig að Alþingi geti að því leyti sem það hefur heimildir og möguleika til brugðist við því ástandi sem hér er um að ræða.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson minntist líka á atriði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem er líka allra góðra gjalda vert, þ.e. spurninguna um það hvort ákveðinn minni hluti Alþingis hefði möguleika á því að vísa málum til þjóðarinnar. Ég hef talið að þannig ætti það að vera og satt að segja er það ákvæði stjórnarskrárinnar sem fjallar um heimild þjóðhöfðingja til þess að vísa máli til þjóðarinnar vægast sagt óheppilegt eins og það er ákveðið í 26. gr. stjórnarskrárinnar í dag þar sem þar með er þjóðhöfðinginn að taka afstöðu til máls eins og mál hafa þróast hér og það er óheppilegt og ljóst að þjóðhöfðinginn grípur þar af leiðandi ekki til þess nema í lengstu lög þó að sá sem nú situr sem forseti Íslands hafi gert það með óheppilegum hætti eins og fyrir liggur.

Ég mun fjalla um þetta nánar í síðari ræðu minni.