136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:29]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi verið svona syfjaður í nótt þegar við vorum að ræða um þessi mál og ég fór yfir meðal annars álit fræðimanna eins og Sigurðar Líndals og Þorgeirs Örlygssonar og vísaði í greinar þeirra varðandi hugtakið þjóðareign og hvernig það væri skilgreint.

Við áttum nokkuð góðar umræður um hugtakið náttúruauðlindir í nótt. En ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi gleymt þeim umræðum. Það er nú einu sinni þannig að umræðuefnið er mjög víðfeðmt þannig að áhugamenn um stjórnarskrá og stjórnarskrárbreytingar hafa í sjálfu sér af mjög miklu að taka og það er ekki í tíu mínútna ræðu hægt að gera fullkomlega grein fyrir öllum þeim sjónarmiðum sem viðkomandi ber fyrir brjósti.

Mér fannst nálgun hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, þegar hann benti á annað orðalag á 1. gr. allrar athygli og áhuga verð, þ.e. þegar hann talar um að nota orðið verðmæti í staðinn fyrir náttúruauðlind. Mér finnst alveg koma til greina að skoða það. En þetta er með öðru dæmi um það hversu vanbúin umræðan er og óþroskuð. Þetta sýnir að við erum að fara svoleiðis gjörsamlega ranga leið og allt aðra leið en til dæmis frændþjóð okkar Svíar. Þeir settu niður sína stjórnlaganefnd sem starfaði í fjögur ár og ræddi um breytingar á stjórnarskrá og komst síðan að sameiginlegri niðurstöðu. Þar fóru fram umræður um grundvallaratriði sem við erum hér að láta fara fram í þingsal. Þetta sýnir hversu gjörsamlega (Forseti hringir.) óeðlilega staðið er að þessum hlutum af hálfu þess meiri hluta (Forseti hringir.) sem er á Alþingi í dag.