136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:33]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður kom með varðandi náttúruauðlindir fundust mér hugleiðingar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar góðar, um að orðið „verðmæti“ gæti hugsanlega komið til móts við það sjónarmið sem hv. þingmaður setti fram og við ræddum um í nótt. Náttúruauðlind er m.a. fiskstofnar í hafinu. Við getum tekið sem dæmi makríl sem syndir inn í íslenska lögsögu, þegar hann er kominn þangað er, samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps, um að ræða náttúruauðlind í eigu þjóðarinnar en um leið og hann syndir út úr lögsögunni er hann það ekki lengur, það liggur alveg fyrir.

Verðmæti er að mörgu leyti nokkuð gott orð en það þarf nánari og ítarlegri umræðu til þess að þau hugtök og sjónarmið séu meitluð í stjórnarskrá eins og nauðsyn ber til að hafa það. Við viljum hafa vandaða, góða stjórnarskrárvinnu og það er það sem ég hef verið að leggja áherslu á.

Varðandi „ríki“ og „þjóð“ eru það hugtök sem þvælast ekki fyrir okkur Íslendingum. Þau gætu hugsanlega vafist fyrir Belgum eða Afgönum en ekki fyrir Íslendingum vegna þess að í fyrsta lagi liggur alveg fyrir að hér lifir og býr einsleit þjóð í landi þar sem náttúruleg afmörkun er fyrir hendi. Það eru því engin vandræði hvað það snertir. Ég sé enga ástæðu til þess að endurtaka í þessu andsvari þau sjónarmið, rök og álitaefni sem ég vakti máls á í umræðum í nótt þegar hv. þingmaður velti þessu máli fyrir sér, það væri þá um endurtekningu að ræða sem ég vil ekki standa að.