136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Út af athugasemd hv. þm. Grétars Mars Jónssonar og ýmissa annarra varðandi hvernig við ræðum um stjórnarskrána mótmæli ég því harðlega að um málþóf sé að ræða. Það kann vel að vera að „málþófs-taktík“ hafi verið beitt í einhverjum öðrum málum, bæði á yfirstandandi þingi og öðrum þingum. Það er alveg eðlilegt fyrir mig að draga hér fram t.d. umræðu um Ríkisútvarpið sem var á þremur þingum, 120 klukkustundir. Hvað segir hv. þingmaður við slíkri orðræðu?

Við ræðum hér um stjórnarskrá Íslands sem er okkar grundvallarplagg, grundvallarlög, og það er aldrei hægt að nota orðið málþóf þegar kemur að stjórnarskránni. Að tala um málþóf finnst mér frekar lýsa virðingarleysi þeirra sem haga orðum sínum þannig þegar menn tala um stjórnarskrána, þannig að það sé sagt hér.

Ég ætla í ræðu minni að fara yfir vinnubrögðin í tengslum við samningu þessa frumvarps, vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð af hálfu forustumanna í ríkisstjórn í tengslum við stjórnarskrána og breytingar á henni, vinnubrögð stjórnarmeirihlutans, Framsóknarflokksins með fulltingi hans, og síðan ætla ég að fara yfir ákveðnar greinar, (Gripið fram í.) m.a. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég ætla að fara yfir auðlindaákvæðið og koma síðan að stjórnlagaþinginu.

Það hefur mikið verið talað um að við sjálfstæðismenn höldum hér langar ræður um stjórnarskrána. Eins og ég gat um áðan er hún það grundvallarplagg sem á að vera hafið yfir pólitískt dægurþras, pólitíska og persónulega hagsmuni stjórnmálamanna hér á Alþingi. Ég tek undir það sem m.a. fræðimenn hafa verið að gagnrýna harðlega, að stjórnarskráin okkar sé notuð sem pólitískt átakaskjal, sem pólitísk skiptimynt á borði ríkisstjórnarinnar. Verið er að nota stjórnarskrána til þess að halda völdum. Verið er að nota stjórnarskrána sem átakaskjal sem til lengri tíma litið er vont því að nú er verið að brjóta áratugalanga hefð, það hefur alltaf náðst fram sátt og samkomulag á milli flokkanna um breytingar á stjórnarskránni. Það er verið að nota þessa umræðu til þess að tefja fyrir öðrum brýnum málum.

Af hverju segi ég það hér? Það er vegna þess að ríkisstjórnin telur að með þessum framgangi sínum í þingsal, með fulltingi forseta þingsins, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, sé hægt að drepa öðrum málum á dreif. Þá þarf ríkisstjórnin ekki að svara óþægilegum spurningum. Hún þarf ekki að svara fyrir þann klofning sem er í stjórnarflokkunum t.d. um mál er varða Helguvík, hún þarf ekki að svara fyrir þann klofning. Það er óþægilegt fyrir ríkisstjórnina að taka það mál á dagskrá og þess vegna er betra að láta okkur sjálfstæðismenn um að verja stjórnarskrána. Það er betra að tefja þingið með því að við ræðum stjórnarskrána og grundvallarbreytingar á henni. Á meðan eru önnur mál ekki rædd, ekki Helguvík, við fáum ekki loftslagsbreytingarnar á dagskrá. Af hverju ekki? Jú, af því að það er ósætti á milli Framsóknarflokksins og okkar sjálfstæðismanna annars vegar og stjórnarflokkanna hins vegar. Þeir vilja með engu móti ræða loftslagsbreytingar og hagsmuni okkar sem við þurfum að verja og standa fyrir á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn sem verður síðar á þessu ári.

Gott og vel. Það kann vel að vera að mönnum í stjórnarmeirihlutanum sé einhver fróun í því að reyna að berja á okkur sjálfstæðismönnum með þessum framgangi og við sjálfstæðismenn kveinkum okkur ekki undan því. En það er með öllu ólíðandi að stjórnarskránni sé beitt í þessa veru.

Ég ræddi um vinnubrögð í ræðu minni á föstudagskvöldið og það virðist vera, af því að ég hlusta bæði á hæstvirta ráðherra í andsvörum en ekki síður á þá örfáu þingmenn sem styðja ríkisstjórnina, að þeir heyri ekki gagnrýni okkar sjálfstæðismanna. Þeir hafa ekki hlustað á ræður, ekki mætt hér í þingsal eða hlustað á ræðurnar í sjónvarpi. Ég tel því rétt að ég fari aðeins yfir það hvernig stjórnarskránni, þessu grundvallarplaggi, þessu mikilvæga plaggi okkar, hefur verið breytt í gegnum árin. Menn tala svolítið þannig eins og stjórnarskránni hafi ekkert verið breytt á umliðnum árum. Henni var breytt 1991, 1995 og 1999 og ekki neinum smáköflum. Við tókumst m.a. á um og fórum yfir mannréttindaákvæðin í stjórnarskránni og haldnir voru fundir víða um landið. Frjáls hagsmunasamtök voru virkjuð og fyrrum formaður okkar, sem var þá þingflokksformaður, gerði sér sérstakt far um að fá sem víðtækasta umræðu úti í samfélaginu um breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar árið 1995.

Samfylkingin hefur rætt um það á umliðnum árum að það þurfi að breyta um vinnubrögð, að ný vinnubrögð þurfi að koma inn í þingið. Að mörgu leyti er hægt að taka undir það. Það þarf að efla löggjafarvaldið, það þarf að styrkja löggjafarvaldið enn frekar. Þær breytingar sem við ræðum hér rýra löggjafarvaldið, þær veikja okkur, þær veikja löggjafarvaldið á hinu háa Alþingi. Hvernig bregst síðan Samfylkingin við undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur þingmanns, sem ég hef iðulega borið mikla virðingu fyrir í gegnum tíðina, hún er þingreyndasti þingmaðurinn okkar. En hún er um leið 1. flutningsmaðurinn að skjali sem veikir löggjafarvaldið, sem tekur stjórnarskrárhlutverkið af Alþingi.

1. flutningsmaður er um leið forsætisráðherra landsins. Hvernig hafa forsætisráðherrar beitt sér í gegnum tíðina þegar verið er breyta stjórnarskránni? Forsætisráðherra er nefnilega ekki bara eitthvert punthlutverk. Forsætisráðherra er ekki bara einhver sem situr mér á hægri hönd sem ígildi forsætisráðherra. Forsætisráðherra er nefnilega að hluta til ákveðinn sáttasemjari, forustumaður stjórnmálaflokka, stjórnmálalegu aflanna, lýðræðislegra afla hér á þingi og á að leiða þá vinnu að ná sátt um stjórnarskrána meðal allra stjórnmálaflokka. Þess vegna er svo einkennilegt að fara yfir hvort sem eru Borgarnesræður eða aðrar ræður formanna og fyrrum formanna Samfylkingarinnar, að standa í þingstól og upplifa hvernig vinnubrögð Samfylkingarinnar eru í þessu máli. Það var ekki einu sinni talað um stjórnlagaþing í fyrri ríkisstjórn. Það var aldrei rætt um stjórnlagaþing í fyrri ríkisstjórn, aldrei. Og sú stjórnarskrárnefnd sem var lengi að störfum undir forustu Jóns Kristjánssonar beitti netinu mikið fyrir sig. Hún kallaði eftir athugasemdum aðila í samfélaginu um stjórnarskrána. Þessi nefnd vildi fá viðbrögð og ákveðnu samspili og það tókst ágætlega. En af öllum þeim athugasemdum sem settar voru fram vegna stjórnarskrárinnar er engin athugasemd um að brýn þörf eða nauðsyn væri á því að efna og stofna til stjórnlagaþings, engin. Þess vegna er sorglegt að sjá hvernig Samfylkingin misbeitir valdi sínu sem forustuflokkur í ríkisstjórn með forseta þingsins í broddi fylkingar og veikir löggjafarvaldið. Hún nær ekki sátt um stjórnarskrána sem er annars mjög mikilvægt af því að stjórnarskráin er stærri en stjórnmálaflokkarnir eða við stjórnmálamennirnir. Hún lifir lengur en hvert kjörtímabil varir og þess vegna megum við ekki breyta stjórnarskránni til þess að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar geti setið lengur að völdum. Hagsmunirnir eru miklu mikilvægari en svo að það megi gerast.

Við sjálfstæðismenn vorum gagnrýndir fyrir margt á 18 árum, sumt með réttu, annað algerlega að ósekju. En vinnubrögð okkar voru þessi: Við tókum okkur þá frekar lengri tíma til að breyta stjórnarskránni af því að hagsmunirnir eru svo ríkir, við þurfum almenna sátt á þingi þegar við ætlum að knýja fram breytingar á stjórnarskránni. En Samfylkingin brýtur upp áratugalanga hefð, ekki þó í þágu þjóðarinnar heldur í sína eigin þágu. Það eru pólitískir hagsmunir sem ráða hér ríkjum og þá er stjórnarskráin í augum Samfylkingarinnar sem hvert annað auðvirðilegt plagg. Hún skiptir ekki máli, hún er bara skiptimynt. Svona umgangast menn ekki stjórnarskrána, það er vítavert, og mér finnst sorglegt að sjá þingreyndasta þingmanninn beita þessum vinnubrögðum, að beita sér ekki fyrir því að ná sátt allra stjórnmálaflokka. Við sjálfstæðismenn erum búnir að ítreka það margoft að við viljum breytingar á stjórnarskránni. Við viljum auka vægi kjósenda í landinu, t.d. í formi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við ályktuðum það á landsfundi okkar sjálfstæðismanna að við viljum almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo segja menn: Sjálfstæðismenn eru feimnir við þjóðina. Við erum það feimin að ef kemur til aðildarumsóknar að ESB, viljum við bera bæði aðildarumsóknina undir þjóðina og síðan ferlið sjálft, niðurstöðuna líka. Er það að vera hræddur við þjóðina? Meðan aðrir flokkar segja: Nei, við ætlum að sniðganga þjóðina alveg frá upphafi þess ferils sem hugsanlega verður.

Nei, frú forseti. Það er þyngra en tárum taki að ræða það hvernig vinnubrögðum hefur verið háttað í þessu öllu. Síðan má ræða hvernig stjórnarskránni er beitt sem pólitískri skiptimynt og að Framsókn þurfi að fá sína dúsu sem heitir stjórnlagaþing. Við sjálfstæðismenn höfum líka sagt að við erum í sjálfu sér ekki á móti stjórnlagaþingi ef það hefði verið rætt einhvern tíma við okkur um það. Reyndar næ ég ekki alltaf að fylgja því hvaða stjórnlagaþing við ræðum hverju sinni því að á örfáum vikum höfum við séð stjórnlagaþingið sífellt í breyttri mynd. Við erum búin að sjá það í þeirri mynd sem það birtist fyrst, síðan var það tekið upp í einhverri allt annarri mynd í annað skiptið og núna er það þriðja útgáfan sem við ræðum.

Ég hefði persónulega líka sem fyrrum menntamálaráðherra hugsað um þann kostnað sem hlýst af stjórnlagaþinginu og viljað heyra ríkisstjórnina taka forustu um að segja: Við ætlum að forgangsraða málum öðruvísi. Núna eru brýn vandamál sem við þurfum að leysa, t.d. hjá námsmönnum. Ég hefði viljað heyra ríkisstjórnina segja: Gott og vel. Við ætlum að fresta stjórnlagaþinginu af því að við ætlum að koma í veg fyrir þann bráðavanda sem blasir við námsmönnum á Íslandi í sumar og koma upp sumarönnum í háskólanum. Við eigum að koma upp sumarönnum í háskólanum. Ef það vantar fjármagn verðum við einfaldlega að forgangsraða í hvers þágu. En ríkisstjórnin, hæstv. menntamálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra vilja frekar stjórnlagaþingið en forgangsraða í þágu námsmanna. Við höfum ekki nægt fjármagn í alla hluti og þá þurfa menn að þora að segja hvar menn vilja bera niður með þá takmörkuðu fjármuni sem til eru. Þetta er eitt dæmi um það af mörgum þar sem eflaust væri hægt að setja þá miklu fjármuni sem eru hátt á þriðja milljarð miðað við aðra tillöguna. Miðað við þá tillögu sem nú er verið að ræða er hugsanlegt að það verði hálfur milljarður. Menn hafa getgátur uppi um að það verði mun hærri fjárhæð ef farið verður út í slíkar „trakteringar“.

Ég var að tala um Framsóknarflokkinn, hann heldur þessu uppi. Það er alveg ljóst að það væri hugsanlega hægt að ná einhverju samkomulagi um þetta en stjórnlagaþingið er mönnum heilagt. Gott og vel. Við sjálfstæðismenn höfum komið til móts í þessari umræðu og sagt: Við skulum athuga ráðgefandi stjórnlagaþing því að við viljum ekki — og það er grundvallaratriði í okkar huga — að Alþingi missi það hlutverk sitt að vera stjórnarskrárgjafi. Það má ekki gerast. Svo tala menn um að auka virðingu þingsins með því að taka af þinginu eitt helsta hlutverk þess. Allt er þetta í boði Framsóknar, alveg eins og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, það er líka í boði Framsóknar. Framsóknarmenn komast ekki hjá því að bera ábyrgð á því aðgerðaleysi sem ríkir hér, það er algert aðgerðaleysi og ringulreið í ríkisstjórninni.

Ég vil geta þess varðandi auðlindaákvæðið að í þeim ríkisstjórnum sem við sjálfstæðismenn höfum setið höfum við að sjálfsögðu haft ríkan vilja til að koma fram með ákveðið ákvæði í stjórnarskránni. Það hefði verið í stjórnarsáttmála okkar varðandi auðlindir landsins og að mörgu leyti má segja að í gegnum orkulögin og vatnalögin höfum við tryggt það að orkuauðlindirnar séu í eigu ríkisins. En eins og það er lagt fram þarna er algerlega ljóst að það eykur frekar réttaróvissu en eyðir henni og það er ekki hægt að koma fram með frumvarp um stjórnarskrána sjálfa sem eykur réttaróvissu en minnkar hana ekki. Gott og vel. Menn vilja ekki hlusta á það sem við sjálfstæðismenn erum að segja. En það hefur enginn sagt mér það hér, hvorki þegar ég hef hlustað á andsvör hæstv. ráðherra og þingmanna Samfylkingar eða Vinstri grænna, af hverju menn vilja ekki hlusta á umsagnaraðila, burt séð frá okkur sjálfstæðismönnum. Af hverju vilja menn ekki hlusta á umsagnaraðila? Og þá er ég komin aftur að því sem ég vék að í upphafi míns máls, stjórnarskráin er notuð sem pólitísk skiptimynt. Það er þess vegna sem menn vilja ekki hlusta á umsagnaraðila, fræðimenn og hagsmunaaðila. Það er ekki út af neinu öðru. Það er hægt að keyra ýmis mál í gegnum þingið en menn ganga á skítugum skónum yfir stjórnarskrána.

Svo dæmi séu tekin þá segir m.a. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti, með leyfi forseta:

„Það er skoðun mín að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálamanna: Þess má vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Þetta segir prófessor í stjórnskipunarrétti, frú forseti. Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu segir m.a., með leyfi forseta:

„Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja fremur skamman þegar umfang málsins er haft í huga.“

Af hverju má ekki hlusta á þetta? Ef við förum yfir í Reykjavíkurakademíuna, segir hún:

„Tíminn er þó allt of naumur til að taka saman vandaðar efnislegar athugasemdir með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð [eru] hér innan húss.“

Það væri líka æskilegt að við hefðum sömu vinnubrögð innan þingsins, að stjórnarflokkarnir mundu einbeita sér að þessu.

Viðskiptaráð Íslands segir líka, með leyfi forseta:

„Fyrir það fyrsta þá gerir viðskiptaráð talsverðar athugasemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða þetta frumvarp með þeim hraða sem raun ber vitni. Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og alla hagsmunaaðila.“

Síðan eru auðvitað margar athugasemdir aðrar sem snerta einstök efnisákvæði frumvarpsins. Lögmannafélagið og laganefnd þess, sem ég tel að menn eigi líka að taka mjög mikið mark á, segir m.a.:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Af hverju er ekki hægt, frú forseti, að taka frá þær breytingar og fyrir þær breytingar sem snerta 79. gr. stjórnarskrárinnar sem er gríðarlega mikilvæg, þ.e. hvernig á að breyta stjórnarskrá? Af hverju er hún ekki samþykkt og henni komið í gegnum þingið? Þá getur nýtt þing sem tekur til starfa hugsanlega eftir 6 eða 8 vikur tekið til við að ræða allar þær breytingar sem um er að ræða. Hvað liggur svona á? Þess vegna er mikilvægt að draga það fram að það er verið að nota stjórnarskrána sem pólitíska skiptimynt, það er verið að breyta henni í ákveðið átakaskjal sem má ekki gerast. Og það sem verra er, ríkisstjórnin kemur í veg fyrir að við ræðum grundvallarmál sem snerta hagsmuni heimilanna, hagsmuni fyrirtækjanna, hina brýnu hagsmuni landsmanna sem þarfnast lausnar við, og við fáum þau ekki rædd vegna þvergirðingsháttar ríkisstjórnar Íslands.