136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:43]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þau vinnubrögð tíðkast hér að þegar verið er að fjalla um hvernig dagskrá þingsins á að líta út fundar forseti með þingflokksformönnum og dagskránni er raðað upp. Allir þingflokksformenn hafa lagt áherslu á að halda áfram að ræða þetta mál meira og minna nema þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur, eins og hér hefur margoft komið fram, viljað breyta dagskránni.

Ég verð að segja að hæstv. forseti hefur haldið vel á þessu máli vegna þess að hér á meiri hlutinn að ráða för, ekki minni hlutinn, þannig er það í lýðræði. (Gripið fram í: Af hverju mátti ekki greiða atkvæði?) Ég skora á hæstv. forseta að láta ekki undan þeim hótunum sem hér hafa verið hafðar frammi, m.a. hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni sem hótaði því áðan að þessu máli yrði haldið í hnút í umræðum þangað til forseti breytti (Forseti hringir.) út af því sem búið er að ákveða um dagskrána (Forseti hringir.) þannig að ég styð hæstv. forseta í því sem hann er að gera.