136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:45]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að rifja aðeins upp um hvað þetta mál fjallar. Hér í morgun lagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fram þá tillögu að þá þegar yrði slitið fundi og boðaður nýr fundur með þeirri dagskrá að fyrst á dagskrá yrði greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Sá hæstv. forseti sem þá sat á forsetastóli treysti sér ekki til þess að láta greiða atkvæði um þá tillögu þá þegar og nú hefur það dregist fram eftir degi, fram yfir hádegi að forseti hefur komið með þann úrskurð að hann ætli nú í lok fundar að láta greiða atkvæði um þá tillögu.

Það sjá það náttúrlega allir að þá nær það ekki tilgangi sínum að koma með þessa tillögu þar sem það hefur verið boðað að það eigi að ljúka fundi hér klukkan fjögur í dag og við vitum að í kvöld er eldhúsdagsumræða. (Forseti hringir.) Ég hvet nú hæstv. forseta (Forseti hringir.) til þess að endurskoða þessa afstöðu sína og (Forseti hringir.) það muni fara fram hér atkvæðagreiðsla. (Forseti hringir.) Það kemur þá í ljós hvort meiri hlutinn (Forseti hringir.) hér á þinginu vill ræða þessa tillögu eða ekki. (Forseti hringir.)