136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:49]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti vill vekja athygli á því að hann er nýkominn út af fundi formanna þingflokka þar sem leitað var eftir sáttum og það er ekki sátt um þetta mál, þ.e. hann hefur úrskurðað með hvaða hætti skuli fara með málið. Það er ákvörðun forseta hver dagskráin er og hafi menn almennt vantrauststillögu á forseta þá verða þeir að bera hana fram með öðrum hætti en að koma endalaust með dagskrártillögur.

Ég óska eftir því að menn noti tímann til þess að ræða málefnalega þau mál sem eru á dagskrá. Það er einlægur vilji forseta að þingheimur fái að tala í samræmi við þingsköp þannig að það eru klár tilmæli mín og þau hafa verið ítrekuð áður að menn snúi sér að máli því sem er á dagskrá og noti tímann til þess að ræða það.

En þingmenn hafa rétt á að ræða fundarstjórn forseta og það hafa einhverjir fleiri óskað eftir því.