136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því að það sé lagt að jöfnu að hér séu bornar fram dagskrártillögur við það að verið sé að bera upp vantraust á forsetann. Þetta er fjarri öllu lagi. Við sjálfstæðismenn viljum fá það fram hér í þingsalnum að það sé vilji þingsins alls að ræða ekki þau mál sem snúa að greiðsluaðlögun og öðrum þeim málum sem skipta svo miklu máli fyrir samfélagið (Gripið fram í.) og atvinnulífið. Það er ekki nóg fyrir okkur þó að nokkrir formenn þingflokkanna komist að þessari niðurstöðu á fundi með forseta. Við viljum að Alþingi sjálft taki þessa ákvörðun. (Gripið fram í.)

Síðan er hitt. Það er furðulegt að þegar við sjáum fréttir sem komu til dæmis í Morgunblaðinu í dag þar sem er sagt frá því að 347 fyrirtæki séu farin í þrot og það sé reiknað með að nokkur þúsund fyrirtæki séu að fara á hausinn á næstu mánuðum, að við þessar aðstæður skuli ekki vera hægt að fá fram hér í þinginu umræðu og afgreiðslu á tillögum sem þingið er mjög sammála um að þurfi að fara fram og þurfi að afgreiða og sé hægt að afgreiða mjög hratt. Fyrir liggur tilboð okkar sjálfstæðismanna um að setja stjórnarskrárumræðuna (Forseti hringir.) til hliðar, ganga frá þessum málum og halda svo áfram. Það er (Forseti hringir.) skelfilegt þegar atvinnuleysi fer vaxandi með hverjum deginum og vandamál (Forseti hringir.) fjölskyldanna versna að menn skuli ekki geta orðið við þessari skynsamlegu tillögu.