136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem síðasti ræðumaður lauk máli sínu varðandi vinnubrögðin. Ég tel að það hafi komið fram í morgun og í ræðu hv. þingmanns og í ræðu hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur í gær að það er full ástæða til að gagnrýna þau vinnubrögð sem hér eru höfð í frammi. Við lýstum eftir því í gær, báðum um sjónarmið varðandi það hvort þingmenn teldu þessi vinnubrögð við hæfi og fórum yfir það og hv. þm. Guðfinna S. Bjarnadóttir rakti það hvernig hún sæi fyrir sér að menn stæðu að þessu máli þannig að viðunandi væri.

Virðulegi forseti. Það er ekki nýmæli að hér sé fjallað um vönduð vinnubrögð við lagasetningu. Raunar hefur það verið talið mikilvægt á undanförnum árum af forustu Alþingis, forseta Alþingis, skrifstofustjóra Alþingis og starfsmönnum þingsins að leggja á ráðin um það með ráðuneytum hvernig best verði staðið að því að undirbúa mál og leggja þau fyrir þingið. Ég fullyrði, virðulegi forseti, að allar reglur sem menn hafa verið að þróa og setja á undanförnum árum eru brotnar við meðferð þessa máls og það er mál sem snertir stjórnarskrána sjálfa. Það snertir sjálf grundvallarlögin, það snertir þær grunnreglur sem hér eiga að gilda og vera til fyrirmyndar fyrir stjórnarhætti í landinu. Ég spyr, virðulegi forseti: Er það svo eftir að bankar hafa hrunið á Íslandi og eftir að það liggur fyrir að innlendir og erlendir sérfræðingar telja að það megi ekki síst rekja til þess að þeim hafi verið illa stjórnað eða glannalega stjórnað að þá sé það næsta skref fyrir okkur í þeirri stöðu sem við erum að hefja óvandaða lagasmíð og óvandaða smíð stjórnarskrárákvæða? Að við þurfum að yfirfæra slæma stjórnarhætti yfir á stjórnkerfið allt og hér inn í Alþingi með frumvarpi sem miðar að því að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu. Ég hef lesið hér eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, forustugrein í Tímariti lögfræðinga eftir Róbert R. Spanó, umboðsmann Alþingis.

Ég hef líka lesið greinar eftir hæstv. dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur sem hún hefur skrifað um hvernig megi vanda betur til lagasetningar á Íslandi. Hæstv. ráðherra hefur kynnt sér þau mál sérstaklega og flutt um þau fyrirlestra og skrifað fræðilegar ritgerðir. Til að bregða ljósi á það sem er talið hæfa í öðrum löndum þegar lög eru til meðferðar, þegar verið er að smíða lög og setja lög, þá ætla ég að lesa úr ritgerð hæstv. dómsmálaráðherra sem ber heitið „Hvernig má vanda betur til lagasetningar“, en þar segir um þessar aðferðir í Danmörku, með leyfi virðulegs forseta:

„Í Danmörku hafa gæði laga verið nokkuð til umræðu og var hún áberandi á tíunda áratug síðustu aldar. Umræðan um gæði löggjafar sneri einkum að fjórum þáttum:

Í fyrsta lagi að hinum lögfræðilega þætti; löggjöf þyrfti að uppfylla lögfræðilegar kröfur þannig að samræmi væri milli lagatexta og greinargerðar og uppfyllt væru skilyrði um skýrleika og skiljanleika laga.

Í öðru lagi að efnahagslegum þætti lagasetningarinnar; samhengi yrði að vera á milli tilgangs reglusetningar, ávinnings hennar og kostnaðar sem af henni leiddi. Því væri nauðsynlegt að meta áhrif lagasetningar og hvort hún væri nauðsynleg eða hvort aðrar aðferðir kæmu til greina.

Í þriðja lagi að gæðum lagasetningarferilsins sem slíks, þar á meðal hvernig löggjöf væri undirbúin. Álitaefnin lutu m.a. að því hvernig samráði við hagsmunaaðila væri háttað, að starfsumhverfi þingsins, svo og samvinnu þess og ríkisstjórnar við meðferð frumvarpa í þinginu.

Í fjórða lagi að hinum pólitíska þætti; þótt æskilegt væri að leggja öll þingmál fram í byrjun hvers löggjafarþings gæti það þó af pólitískum ástæðum ekki ávallt verið mögulegt. Bæði Folketinget og danska dómsmálaráðuneytið hafa í tengslum við þessa umræðu staðið að útgáfum rita í þeirri viðleitni að stuðla að auknum gæðum laga.“

Virðulegi forseti. Þegar þetta er lesið og þegar menn velta fyrir sér viðleitni hér á landi til að ná betri tökum á lagasmíð og skapa þeirri vinnu vandað umhverfi þá er það með öllu ljóst að aðferðin sem beitt hefur verið við gerð þessa frumvarps gengur þvert á allar hugmyndir manna um það hvernig eigi að vinna svona mál. Og ef litið er á þessi fjögur grundvallaratriði sem menn leggja niður í Danmörku þegar þeir velta fyrir sér vandaðri lagasmíð, þá sést að við höfum brotið allar þessar reglur eða þær hafa allar verið brotnar af hæstv. ríkisstjórn við undirbúning þessa máls.

Það verður til upp úr myndun ríkisstjórnar eða við myndun ríkisstjórnar. Það er enginn aðdragandi á neinn þann veg að menn séu búnir að gera upp við sig nákvæmlega hvað stendur í textanum. Það vantar allan skýrleika, það vantar allt samræmi á milli greinargerðar og þess sem stendur í lagatextanum og það vantar líka allt tillit til umsagnaraðila. Þeir eru hunsaðir eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að þegar hæstv. forsætisráðherra leyfir sér að fullyrða að þetta sé gert vegna kröfu þjóðarinnar og lesnar eru umsagnirnar sem koma frá aðilum utan þingsins þá kemur í ljós að það er enginn þeirra sem ekki gerir athugasemd við frumvarpið. Það er sama hvort menn líta á málið innan þingsins eða utan, það er ósamstaða um þetta og mikill ágreiningur og mikil óvissa um hvað í frumvarpinu felst. Að þessu leyti er frumvarpið í raun og veru þannig lagt fyrir okkur að bara með vísan til málsmeðferðarinnar þarf að vísa því frá eins og kemur fram í tillögu okkar í minni hluta sérnefndar um stjórnarskrármál.

Ég sé það í blöðum eða á vefmiðlum nú að hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir eins og það sé sjálfsagður hlutur að hér hafi menn komið upp og endurtekið hver sama boðskapinn sem hafa talað. Ég er búinn að flytja nokkrar ræður og ég hef ekki í neinum af þeim haldið mig við sama stefið nema að því leyti að ég krefst þess að menn virði Alþingi og gæti virðingar þingsins. Ég hef í hverri ræðu, virðulegi forseti, og leyfi mér að fullyrða það hér, komið með nýja málsástæðu, ný rök sem eru til þess fallin að sýna fram á hvers kyns glapræði það er að ætla sér að afgreiða þetta frumvarp í þeirri mynd sem það er. Ég mótmæli þessu því harðlega.

Hæstv. forsætisráðherra sýnir þinginu ekki þá virðingu að vera hér í salnum og hlusta á umræðurnar en telur sig í færum til þess að standa utan dyra og gagnrýna ræður sem hér eru fluttar og segja að þær séu aðeins endurtekning á því sem næsti maður á undan sagði. Þetta er alrangt og þetta er enn til marks um þá óvirðingu sem okkur er sýnd í þessum umræðum í þinginu, bæði tillögunni og okkur ræðumönnum, þegar menn sem ekki sitja hér og hlusta og vita ekki hvað gerist í þingsalnum leggja síðan dóm á það með sleggjudómum eins og hæstv. forsætisráðherra gerir. Ég held að hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur væri nær að gegna því hlutverki sem forsætisráðherra á að gegna á stundum sem þessari, að reyna að sameina þjóðina, að reyna að leiða mál til lykta á hinu háa Alþingi í sátt og finna þá málamiðlun sem þarf til að þingstörfin geti gengið, til að menn fái tækifæri til að ræða um hag heimilanna og fyrirtækjanna og koma til móts við þau mál í stað þess að vera hér. Nei, í stað þess að beita sér fyrir slíku leyfir hæstv. forsætisráðherra sér að standa utan dyra og segja að þingmenn séu að fara með sömu rulluna sem er alrangt og stenst ekki og síðan er hæstv. forseti þingsins þeirrar gerðar að hann hefur enga burði til að ná sátt í þingsalnum. Það er hin sorglega hlið þessa máls.