136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Til hvers var stofnað til þessa ríkisstjórnarsamstarfs sem við búum hér við? Hver voru loforð þessarar minnihlutastjórnar til fólksins í landinu? (Gripið fram í: Að breyta stjórnarskránni.) Loforðin voru þau að beita sér fyrir hag heimilanna, að beita sér fyrir málum sem hefðu bein áhrif á hag heimilanna og atvinnulífið í landinu. Það var á þeim forsendum sem framsóknarmenn ákváðu að verja þessa ríkisstjórn falli og vildu reyndar að þingstörfum lyki 12. mars en nú erum við hér þegar liðið er á dymbilviku. Það eru að koma páskar og nokkuð einsýnt að þingstörf verða fram yfir páska og geta svo sem okkar sjálfstæðismanna vegna verið fram að kjördegi, 25. apríl. En af því að það eru að koma páskar þá er kannski viðeigandi að segja við hæstv. ríkisstjórn: Betra er ólofað en illa efnt.

Þessi ríkisstjórn sem vildi kenna sig við aðgerðir og velferðarmál hefur lítið sem ekkert gert og öll þau mikilvægu mál sem brenna á heimilum landsins, öll þau mikilvægu mál sem brenna á fyrirtækjunum og atvinnulífinu eru látin dankast, þau eru látin vera vegna þess að það er sennilega engin samstaða um mörg þeirra á ríkisstjórnarheimilinu. Á meðan er fólk í óvissu, á meðan er atvinnulífið í enn meiri óvissu, fyrirtæki stór og smá eru að fara á hausinn, menn eru hreinlega að gefast upp og allar aðgerðirnar sem var lofað að kæmu strax á fyrstu vikum þessarar ríkisstjórnar láta ekki á sér kræla.

Mikilvæg mál sem tengjast atvinnuvegunum eins og afgreiðsla á frumvarpi um framkvæmdir í Helguvík, mikilvæg mál sem tengjast atvinnuvegunum eins og loftslagsmálefnin, hvalveiðimálið, málefni heimilanna sem eru í pípunum og við sjálfstæðismenn erum að kalla eftir að komi á dagskrá, það er svo sem engin eining um þessi mál hjá hæstv. ríkisstjórn. Því kýs hún í valdi sínu, eins og það var orðað þegar skipt var um hæstv. forseta eftir að hún tók við, að það yrði að vera þannig að ríkisstjórnin hefði tögl og hagldir varðandi dagskrá þingsins og þingstörfin.

Þessi staða hlýtur að vekja upp spurningar varðandi framtíðarsamstarf þessara flokka, eða hvernig á þjóðin að geta treyst því að þessir flokkar geti unnið saman og komið sér saman um mikilvæg málefni eftir kosningar? Nei, það er kannski það góða við þessa ríkisstjórn og við þetta aðgerðaleysi, virðulegi forseti, að vonandi áttar fólkið í landinu sig á því að í kosningunum 25. apríl verður að kjósa í von á framtíðina, í von og trú á þá leið sem verður farin til þess að ná okkur út úr þessum hremmingum sem þjóðin er í. Sú leið fæst ekki með vinstri stjórn, svo mikið höfum við lært á ekki lengri tíma.

Við sjálfstæðismenn höfum verið sakaðir um málþóf og það má vel vera að einhverjir kjósi að kalla málflutning okkar málþóf. Hér hefur þó verið á ferðinni málefnalegur málflutningur, málefnalegar og efnislegar athugasemdir við við þetta mál, við þetta frumvarp. Ekki síst höfum við gert athugasemdir við það hvernig þetta mál er unnið og hvernig er að því staðið. Umsagnir um mál sem Alþingi leitar eftir úti í samfélaginu er hin lýðræðislega leið. Hún er hin lýðræðislega leið borgaranna til að geta haft áhrif á störf Alþingis, til að geta haft áhrif á lagasetningu, til að geta komið skoðunum sínum á framfæri um mál í meðförum þingsins. Þetta er leið almennings, þetta er leið samfélagsins að störfum þingsins. Þeir sem hafa talað fyrir hönd minnihlutastjórnarinnar tala um að auka þurfi aðgengi almennings að störfum þingsins. En á sama tíma í þessu mikilvæga máli, í þessu stóra máli þar sem við fjöllum um sjálfa stjórnarskrána, stjórnarskrá lýðveldisins þá kjósa þeir að hunsa og virða ekki skoðanir okkar virtustu sérfræðinga á þessum málum og þeirra félaga og samtaka sem hafa sent okkur umsagnir.

Á þeim stutta tíma sem nefndin sem um málið fjallaði var að störfum bárust henni 30 umsagnir eða athugasemdir um málið. Ég vil ítreka að það var föstudaginn 13. mars, sem gefur hjátrúnni ákveðið gildi þegar horft er til þessa máls, að þetta skuli hafa verið föstudaginn 13. mars sem þetta mál var látið sigla áfram. Á þeim tíma, á u.þ.b. þremur vikum, ef það hefur náð því, virðulegi forseti, það var skemmri tími sem flestir fengu til umsagnar jafnvel niður í viku, áttu menn að skila umsögnum og fara ofan í svo veigamiklar breytingar á sjálfri stjórnarskránni. Ég held að það sé ástæða til að rifja upp nokkur af þessum ummælum. Það hefur verið gert nokkuð af því í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um málið en sú vísa er aldrei of oft kveðin, að reyna að vekja athygli á því, vekja athygli fjölmiðlanna, reyna að vekja athygli almennings á því hvað er djúpstæður ágreiningur í gangi, hvernig þessi minnihlutastjórn ætlar að troða í gegn stórmáli sem er grundvallarágreiningur um.

Það voru aðeins tvö félög sem almennt séð gáfu jákvæða umsögn um frumvarpið, þ.e. ASÍ og BSRB. BSRB, sem lýtur formennsku hæstv. heilbrigðisráðherra, og ASÍ, sem er, eins og flestir vita, undir hælnum á Samfylkingunni. Var þetta of mikið sagt? Nei, ég held ekki. (Gripið fram í: Jú.) Þetta setur spurningarmerki við þessi samtök og trúverðugleika þeirra. Ég ætla að vitna í nokkrar umsagnir, eða útdrátt úr þeim.

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík, segir, með leyfi forseta:

„Það er skoðun mín að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almenn sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Davíð Þorláksson lögfræðingur segir, með leyfi forseta:

„ … tel ég að það væri verulega misráðið af stjórnarskrárgjafanum að binda 1. gr. frumvarpsins í stjórnarskrána.“

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, segir, með leyfi forseta:

„Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja fremur skamman þegar umfang málsins er haft í huga. … æskilegt [er] að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði“ — þ.e. á 1. gr. frumvarpsins — „og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Einn okkar virtasti lagaspekingur, prófessor emerítus Sigurður Líndal, sem er líklega lærifaðir margra lögfræðinga sem sitja á þingi í dag, segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð … [ég tel] rétt að fella brott 1. gr. þannig að betra tóm gefist til að huga að því hvernig slíkum yfirlýsingum verði fyrir komið ef á annað borð þykir rétt að hafa slíkt í stjórnarskrá.“

Hann segir síðar í umsögn sinni:

„Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi niður í deilur sem engu skili.“

Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, prófessorar í hagfræði við Háskóla Íslands, segja, með leyfi forseta:

„Teljum við að með samþykkt ákvæðisins væri verið að veikja efnahag þjóðarinnar enn frekar.“

Það eru fleiri, virðulegi forseti, sem gefa þessu umsagnir og enn og aftur minni ég á það að umsagnir eru hin lýðræðislega leið almennings og samfélagsins að störfum okkar hér í þinginu. Það er þess vegna sem við höfum nefndir og það er þess vegna sem þingið sendir mál til nefnda, það er til þess að þar sé fjallað um þau á málefnalegan hátt og þar fái almenningur aðgang að málum í gegnum nefndirnar, þar fái almenningur möguleika á því að koma fram athugasemdum sínum og rökstyðja þær og þar taki málið þeim breytingum að sem víðtækust sátt náist um þau. Aldrei er meiri ástæða til þess að reyna að vinna eftir þessari reglu, virðulegi forseti, en einmitt þegar verið er að fjalla um stjórnarskrá lýðveldisins.

Það hafa verið vinnubrögðin sem hafa verið viðhöfð í gegnum áratugina. Þau vinnubrögð sem viðhöfð eru hér af þessari minnihlutastjórn, studdri af Framsóknarflokknum, eiga sér ekki fordæmi. Það á að troða þessu í gegn, máli sem er í sjálfu sér ekki svo mikilvægt við þær aðstæður sem eru uppi í okkar samfélagi, það eru mörg önnur mál sem eru miklu mikilvægari, það eru mörg önnur mál sem skipta miklu meira máli og við ættum að snúa okkur að þeim.

Ég ætla að halda áfram að vitna hér í umsagnir þeirra sem hafa sent nefndinni umsagnir, sent okkur þingmönnum umsagnir, um þetta mál til þess að ítreka það og í þeirri von að samfélagið, almenningur, átti sig á því hvað hér er í gangi, átti sig á því hvað þessi minnihlutastjórn er að gera, ætlar að troða hér í gegn máli með fordæmalausum vinnubrögðum.

Samorka segir m.a. í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„… að efnisatriði frumvarpsins hafi ekki fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem eðlilegt hlýtur að teljast við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins … leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins.“

Reykjavíkurakademían segir, með leyfi forseta:

„Tíminn [er þó] allt of naumur til að taka saman vandaðar efnislegar athugasemdir með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hér innanhúss … RA hefur verulegar efasemdir um þau frumvarpsdrög um stjórnlagaþing sem fylgja frumvarpinu.“

Orkustofnun segir um auðlindahugtakið, með leyfi forseta:

„Hvor skilningurinn sem lagður er til grundvallar er þetta óskiljanlegt. Ljóst er að með umorðun á því sem fram kemur í niðurstöðum auðlindanefndar þeirrar, sem kosin var á Alþingi í kjölfar samþykktar á þingsályktun í júní 1998, hefur eitthvað misfarist af hálfu stjórnarskrárgjafans.“ — Hér er átt við frumvarpshöfunda. — „Orkustofnun leggur til að hinu nýja þjóðareignarhugtaki verði sleppt …“

Þá kem ég kannski að því sem ég ætla að vitna hér í síðast, virðulegi forseti, en það er umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands (AtlG: Ertu ekki búinn að lesa það?) — ég reikna með að hv. þm. Atli Gíslason sé félagi í Lögmannafélagi Íslands og gengur hann þar með úr salnum. Það er eðlilegt, virðulegi forseti, að lögmaðurinn, sá eini sem var í salnum núna, vilji ganga út þegar hann þarf að hlusta á umsagnir þeirra sem hann og félagar hans kjósa til trúnaðarstarfa í samtökum sínum og hann hefur tekið ákvörðun um að ráðast gegn í sinni vinnu.

Í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands segir m.a., með leyfi forseta:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Virðulegi forseti. Þetta voru einungis brot úr örfáum athugasemdum af öllum þeim athugasemdum sem okkur hafa borist um þetta mál. (Iðnrh.: En hefur þingmaðurinn ekkert sjálfstætt fram að leggja?) Þingmaðurinn hefur margt sjálfstætt fram að leggja. Hann hefur það sjálfstætt fram að leggja, hæstv. iðnaðarráðherra, að hlusta á þjóðina í þessu landi. Þingmaðurinn er ekki lögfræðimenntaður og sekkur sér ekki þannig í fræðilega hluta þessa máls. (Iðnrh.: Hann hefur ekkert fram að færa.) Hann hefur heilmikið fram að færa þegar hann stendur hér vörð um að þjóðin fái að segja sitt álit og eitthvert mark sé tekið á henni. Það er það sem sá þingmaður sem hér stendur ætlar að standa vörð um í þessu máli, hæstv. iðnaðarráðherra. Það er það sem hann hefur fram að færa í þessu máli, það er að standa vörð um þjóðina og stjórnarskrá landsins í þessu máli, að hér sé ekki einhver minnihlutaríkisstjórn sem tekur ákvörðun um að troða þessu máli hér í gegn með þeirri miklu óeiningu sem um það er í samfélaginu.

Mér er til efs að fordæmi finnist um eins alvarlegar og sterkar athugasemdir í umsögnum um mál sem samt skulu keyrð í gegn. Þær eru nánast einróma, þessar athugasemdir. Samt skal þessi ríkisstjórn, og þeir flokkar sem hana styðja, dirfast að nota sjálfa stjórnarskrána í hrossakaupum sín á milli og standa á sama tíma í vegi fyrir tillögum okkar sjálfstæðismanna um að taka hér upp á borðið og taka til umfjöllunar þau mál sem brenna á þessu samfélagi.

Öðruvísi mér áður brá með sumt af því fólki sem styður ríkisstjórnina, með suma af þeim hv. þingmönnum sem styðja ríkisstjórnina. Ég hélt satt að segja að margir þeirra væru málefnalegri en þetta, að leggjast í það kjarkleysi og dugleysi sem ósamstaða ríkisstjórnarinnar leiðir af sér. Þetta á rætur sínar að rekja í því, virðulegi forseti, hver ósamstaðan er innan ríkisstjórnarinnar. Eða hvernig er það þegar kemur að atvinnumálum? Þá verður hæstv. iðnaðarráðherra að treysta á okkur sjálfstæðismenn til að koma góðum málum í gegn (Gripið fram í: Og Framsókn.) og Framsókn (Gripið fram í.) og hluta af sínu eigin liði, já. Hann fær ekki einu sinni allt sitt lið á bak við sig í það. Við stöndum vörð um góð mál og erum tilbúin að koma þeim í gegn.

Ég býð ekki í það ef þetta eru vinnubrögðin sem við eigum von á eftir kosningar, virðulegi forseti, ég býð ekki í það ef sú verður niðurstaðan úr komandi kosningum. Þá er ekki von á góðu vegna þess að það er alveg ljóst að viðspyrna okkar út úr þeim aðstæðum sem við erum í liggur í gegnum aukna verðmætasköpun, í gegnum atvinnulífið, í gegnum stóriðju sem af spretta síðan lítil og meðalstór fyrirtæki, grasrótarfyrirtæki og hátækniiðnaður. Bara að grunnurinn sé sterkur, byggður á nýtingu náttúruauðlinda okkar. (Forseti hringir.) Það er þar sem þetta gerist en það mun ekki (Forseti hringir.) gerast, virðulegi forseti, ef þessir tveir flokkar ná að mynda ríkisstjórn saman eftir kosningar.