136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða var skólabókarræða um málþóf. Hv. þm. Jón Gunnarsson hafði ekkert fram að færa efnislega um það mál sem hér er til umræðu. Hann glefsaði ofan í einhverjar álitsgerðir um þetta en hafði enga skoðun, hann hafði ekki kjark til þess að hafa sjálfstæða skoðun á því máli sem hér er til umræðu.

Hv. þingmaður sagði hins vegar að hann væri þeirrar skoðunar að þjóðin ætti sjálf að fá að kveða upp álit í þessu umdeilda máli. Það er þannig, herra forseti, út á það gengur þetta mál. Það gengur m.a. út á það að heimila stjórnlagaþing sem þjóðin fær að kjósa fulltrúa á og ráða til lykta breytingar á stjórnarskránni. Þetta fjallar sömuleiðis um það að þjóðin fái tækifæri, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár, til þess að setja mál á dagskrá með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn er hræddur við og eitt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað að verja hér eru hagsmunir LÍÚ. Hv. þingmaður og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum standa vörð um þá hagsmuni sem eru andstæðir því að stjórnarskráin lýsi yfir að á sameiginlegum auðlindum, sem ekki lúta einakeignarrétti, skuli vera þjóðareign. Það er það sem þetta mál gengur út á. Það er verið að verja hagsmuni LÍÚ og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er að ganga þeirra erinda.