136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

dagskrártillaga.

[15:03]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vegna þeirrar dagskrártillögu sem ég hef hér lagt fram ætla ég að leggja til að sú dagskrártillaga sem þar kemur fram eigi við um 130. þingfund en ekki þann 129. Ég ætla ekki að koma hæstv. forseta Alþingis í þá stöðu að þurfa að leggja það til að eldhúsdagur falli niður með samþykki þessarar tillögu enda trúi ég hvorki að hæstv. forseti Alþingis né aðrir hv. þingmenn geri annað en að greiða þessari tillögu atkvæði sitt.

Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er lögð fram er sú að ég vil, sem einn af flutningsmönnum frumvarps ásamt félögum mínum í allsherjarnefnd úr öllum stjórnmálaflokkum, að á þinginu verði tekið til umræðu frumvarp til laga um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði í staðinn fyrir breytingar á stjórnarskrá sem hafa ekkert með skuldir heimilanna að gera eða atvinnulífið í landinu. Það hefur verið krafa um það úti í samfélaginu að fulltrúar allra stjórnmálaflokka snúi bökum saman til að leysa úr vanda heimilanna. (Forseti hringir.) Framlagning þessarar tillögu er framlag Sjálfstæðisflokksins til þess (Forseti hringir.) að það sé hægt að gera … (Forseti hringir.) og á þá tillögu getur þingið fallist.