136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

skýrsla fjármálanefndar breska þingsins um áhrif aðgerða bresku stjórnarinnar á fall íslensku bankanna.

[15:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu. Ég átti sömuleiðis góðan fund í morgun með utanríkismálanefnd þar sem við fórum yfir skýrsluna og ræddum stöðu málsins og það er að sjálfsögðu gott og gagnlegt að gera það hér. Ég held að skýrslan sé tvímælalaust jákvætt innlegg í umræður og gagnasafn þessa máls og geti gagnast okkur á ýmsan hátt til að ná rétti okkar og rétta okkar hlut. Það sem er að mínu mati verðmætast við skýrsluna er að þar er staðfest með nokkuð óyggjandi hætti að í fyrsta lagi gerðust bresk stjórnvöld beinir og virkir gerendur í atburðarásinni með ákvörðunum sínum og aðgerðum, einkum 8. október sl. Það færir ábyrgð yfir á þeirra herðar og breskra stjórnvalda að þeir gripu inn í atburðarás með beinum hætti, gerðust gerendur og hljóta að axla ábyrgð á því sem þeir gerðu og þurfa að svara fyrir það.

Það eru í öðru lagi færð fyrir því sterk rök og ekkert dregið undan í þeim efnum að aðgerðir Breta höfðu umtalsverð neikvæð áhrif á viðleitni íslenskra stjórnvalda til að standa vörð um það sem eftir var á lífi af fjármálakerfinu. Því verður ekki í móti mælt að það torveldaði mjög viðleitni íslenskra stjórnvalda til að berjast ásamt með viðkomandi stofnunum fyrir tilveru þeirra. Það færir sömuleiðis ábyrgð á herðar Breta í þessum efnum.

Í þriðja lagi er það staðfest að það eru engar innstæður fyrir þeirri túlkun fjármálaráðherra Bretlands á upplýsingum sem fyrir lágu, hvort sem það er símtal hans við hv. þingmann og hæstv. fyrrverandi ráðherra, Árna Mathiesen, eða önnur gögn, að fullyrða að Ísland hafi gefið til kynna að það hefði engin áform um að standa við skuldbindingar sínar eins og það var svo smekklega sagt. Það eru innstæðulaus orð fjármálaráðherra Bretlands og það er mikilvægt að hafa um það vitnisburð frá sjálfu breska þinginu og hlýtur tíðindum að sæta þar í landi.

Það veikir auðvitað verulega málsástæður breskra stjórnvalda að þetta liggi fyrir þetta skýrt með þessum hætti og styrkir möguleika okkar.

Í fjórða lagi er hér tekið fram og viðurkennt að hið evrópska regluverk í þessum efnum er ófullnægjandi og gallað. Það er sökudólgurinn, það færir ábyrgðina yfir á það og það má velta fyrir sér hvort ekki sé komin góð og gild ástæða til viðbótar öðrum sem fyrir liggja til að fara fram á það að menn deili með einhverjum hætti með sér byrðunum af afleiðingunum sem þarna urðu.

Í fimmta lagi, og þó að það standi ekki beint í skýrslunni, tel ég að þetta stofni til þess að spyrja býsna óþægilegra spurninga gagnvart breskum stjórnvöldum sem hafa á umliðnum árum reynt að byggja Bretland, og London sérstaklega, upp sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Er þetta sú stjórnsýsla sem menn geta þá átt von á þar í landi? Ef þetta á að verða alvöru- og alþjóðleg fjármálamiðstöð sem stendur undir nafni ætlast menn væntanlega til þess að stjórnsýsla sé vönduð og leikreglunum fylgt og menn ekki beittir óþarfaósanngirni og harðræði.

Þetta tel ég að muni gagnast okkur með ýmsum hætti ef rétt er úr spilað, í fyrsta lagi gagnvart samningagerðinni — og að sjálfsögðu verður þetta þrautlesið og skoðað af samninganefnd okkar og þeim lögfræðilegu ráðgjöfum sem hún styðst við. Sömuleiðis hefur verið ákveðið að forsætisráðherra okkar skrifi forsætisráðherra Bretlands bréf og fari fram á að viðbrögð Breta við þessum niðurstöðum komi fram, að við munum bíða spennt eftir þeim. Í þriðja lagi tel ég augljóst að þetta styrki kröfu okkar um að frystingunni verði nú aflétt og loks eigi að gefa okkur ýmis færi til að rétta okkar hlut almennt, hlut okkar og orðstír í almennum skilningi þess orðs. Allt þetta þarf að fara yfir og það munum við gera. Við höfum haft 2–3 daga til að skoða skýrsluna, það sem af er, og fjármálaráðuneytið, samninganefndin og lögfræðiráðgjafar, forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið munu fara yfir þetta mál. Við höfum ákveðið í fjármálaráðuneytinu að taka saman útdrátt úr skýrslunni (Forseti hringir.) og greinargerð í framhaldinu um hvernig hún getur gagnast okkur í þessu verki.